Hagfræðideild Landsbankans telur að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda áfram að lækka stýrivexti þegar næsta vaxtaákvörðun hennar verður kynnt á miðvikudag í næstu viku. Gangi það eftir munu vextir bankans fara undir fjögur prósent í fyrsta sinn frá því seint á árinu 2011.
Í nýrri Hagsjá bankans segir að líklegt sé að vextirnir eigi eftir að lækka um eitt prósentustig til viðbótar frá því sem nú er og verða þrjú prósent. Það muni þó gerast í nokkrum skrefum á næstu misserum. „ Við teljum að það sem helst muni hafa áhrif á ákvörðunina nú sé annars vegar veiking krónunnar, sem dregur heldur úr líkum á vaxtalækkun, og hins vegar lækkun verðbólguvæntinga fyrirtækja, sem styður við að næsta skref í lækkun vaxta verði tekið. Þessir tveir þættir munu vegast á en við teljum að lækkun verðbólguvæntinga í átt að markmiði muni vega þyngra. Líklegt má telja að nefndinni sé mjög umhugað um að hvorki dýpka né lengja fyrirséðan samdrátt í hagkerfinu með því að draga ekki nægilega mikið úr aðhaldi peningastefnunnar, að því gefnu að langtímaverðbólguvæntingar haldist nálægt markmiði. Það mun einnig lita ákvörðunina nú.“
Ná markmiði lífskjarnasamninga
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í maí að lækka vexti bankans um 0,5 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, voru 4,5 prósent en urðu fjögur prósent.
Verði þeir lækkaðir um að minnsta kosti 0,25 prósentustig í næstu viku verður því markmiði náð nú þegar, að minnsta kosti tímabundið.
Vextir á lánum sem standa neytendum til boða hafa líka lækkað mjög skarpt undanfarin ár. Nú eru til að mynda lægstu breytilegu verðtryggðu vextir á húsnæðislánum 2,06 prósent hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Til stendur að breyta þeim vöxtum sjóðsins í 2,26 prósent frá og með 1. ágúst næstkomandi. Eftir breytinguna munu bæði Frjálsi lífeyrissjóðurinn (2,15 prósent) og Almenni lífeyrissjóðurinn (2,18 prósent) bjóða sínum félögum upp á lægri breytileg vaxtakjör á verðtryggðum lánum, breyti þeir ekki vöxtum sínum þangað til.