Þorri Íslendinga er jákvæður í garð alþjóðastofnana og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir utanríkisráðuneytið þar sem viðhorfið Íslendinga gagnvart alþjóðasamstarfi var kannað.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fagnar niðurstöðunni, í tilkynningu. „Það er ánægjulegt að sjá hversu alþjóðlega sinnaðir Íslendingar eru almennt og greinilegt að flestir vilja að Ísland taki áfram virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi, sérstaklega norrænu samstarfi og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Stuðningurinn við Evrópska efnahagssvæðið er afgerandi sem er ánægjulegt. Sömuleiðis er góður stuðningur við aðildina að Atlantshafsbandalaginu þótt hún sé líka umdeild eins og búast mátti við,“ segir Guðlaugur Þór.
Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að drjúgur meirihluti telur hagsæld Íslands byggjast að miklu leyti á alþjóðlegri samvinnu (73,6%) og alþjóðlegum viðskiptum (78,3%).
„Norrænt samstarf á sérstakan stað í hugum landsmanna en 92% eru jákvæð gagnvart virkri þátttöku Íslands í Norðurlandasamstarfi. Þátttaka Íslands í störfum Sameinuðu þjóðanna (77,9%) og mannréttindaráðsins (80,8%) nýtur einnig fylgis meðal landsmanna sem telja jafnframt að seta Íslands í mannréttindaráðinu geti haft jákvæð áhrif á þróun mannréttinda á heimsvísu (70,3%). Þá var viðhorf Íslendinga til þátttöku Íslands í störfum annarra alþjóðastofnana jákvætt en kannað var viðhorf til Norðurskautsráðsins (73,8%), Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) (62,3%), Evrópuráðsins í Strassborg (50,8%) Alþjóðabankans (36%) en þess má geta að svarendur sögðust ekki þekkja vel til síðastnefndu stofnananna,“ segir í tilkynningunni frá utanríkisráðuneytinu.