Eignir innlánsstofnana á Íslandi námu 3.885,1 milljörðum króna í lok maí og hækkuðu um 32,7 milljarða í þeim mánuði, samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands birti í dag.
Þar af voru innlendar eignir 3.406,1 milljarðar króna og hækkuðu um 18,5 milljarða króna í mánuðinum, miðað við apríl mánuð. Erlendar eignir námu 479 milljörðum króna og hækkuðu um 14,2 milljarða í mánuðinum.
Íslenska fjármálakerfið er því að langmestu leyti bundið við íslenska hagkerfið, en 87,7 prósent af því er í innlendum eignum en 12,3 prósent í erlendum eignum.
Stærstur hluti eigna bankakerfisins liggur í útlánum til heimila og fyrirtækja.
Eigið fé íslenskra innlánsstofnanna nam 615,2 milljörðum króna í lok maí og lækkaði það um 329 milljónir í maí mánuði, miðað við mánuðinn á undan.
Sé horft til skulda íslenska fjármálakerfisins þá voru þær 3.242 milljarðar króna í maí. Þar af voru innlendar skuldir - sem eru að mestu innlán heimila og fyrirtækja - 2.503,8 milljarðar og erlendar skuldir 739 milljarðar króna. Sé horft til skulda þá eru innlendar skuldir 77,3 prósent skulda og erlendar skuldir 22,7 prósent.
Stærstu bankar landsins eru Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki. Íslenska ríkið er stærsti eigandi hlutafjár á íslenskum fjármálamarkaði, með um 75 prósent af öllu fjármálakerfinu, en ríkið á allt hlutafé í Íslandsbanka og um 99 prósent í Landsbankanum.
Arion banki er hins vegar alfarið í einkaeigu og er skráður á markað. Eigið fé bankans nam um 193 milljörðum í lok fyrsta ársfjórðungs þessa árs.