Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis vonast til þess að koma vinnu við endurskoðun þingskapa Alþingis sem lýtur að umræðum og skipulagningu þeirra í farveg strax á næstu dögum. Hann segir að það verði að taka til endurskoðunar „einkennilega framkvæmd“ andsvara á þinginu og það fyrirkomulag að réttur manna til að taka til máls sé óendalegur við aðra umræðu lagafrumvarpa og síðari umræðu þingsályktunartillaga. Yfirstandandi þing hefur þegar staðið yfir í um 865 klukkustundir og því er ekki enn lokið
Alþingismenn hugsi yfir því hvernig störfum þingmanna er hagað
Alþingi hefur nú lokið þingstörfum fyrir sumarhlé þingsins en þingmenn koma saman á ný miðvikudaginn 28. ágúst til að ræða og afgreiða þingmál sem tengjast þriðja orkupakkanum. Við þingfrestun í gær þakkaði forseti Alþingis alþingismönnum fyrir samstarfið í ræðu sinni og fjallaði um þær tillögur sem liggja fyrir þegar þinghald hefst að nýju í haust.
Þar á meðal fjallaði Steingrímur um frumvarp til laga um breytingu á þingsköpum sem liggur fyrir vegna nýsamþykkra laga um gildissvið upplýsingalaga en þau taka nú til stjórnsýslu Alþingis. Auk þess nefnir Steingrímur aðra endurskoðun á þingsköpum sem lýtur að umræðum og skipulagningu þeirra, auk ýmissa annarra atriða sem því tengist.
„Ég held að flestir alþingismenn séu nú eftir þinghaldið síðustu vikur nokkuð hugsi yfir því hvernig störfum okkar þingmanna er hagað samkvæmt gildandi reglum og birtist þjóðinni daglega í fréttum og beinum útsendingum og þá á hvaða braut Alþingi er komið, ekki síst í ljósi þess rýra trausts sem það nýtur um þessar mundir.“ segir hann.
Óendanlegur réttur manna til að taka til máls
Málþóf Miðflokksmanna í umræðum um þriðja orkupakkann á Alþingi í maí síðastliðnum vakti mikla athygli en ræður, andsvör og svör við andsvörum um málið stóðu yfir í yfir hundrað klukkustundir og töluðu þingmenn Miðflokksins stóran hluta þess tíma. Steingrímur skoraði ítrekað á þingmennina að ljúka málþófi um málið til að hægt væri að hefja umræðu um önnur mál og til að koma í veg fyrir frekari röskun á starfi þingsins.
Í ræðu Steingríms í gær kom fram að við þingmönnunum blasi einkennileg framkvæmd andsvara sem verði að taka til endurskoðunar og færa í það horf sem til var stofnað í upphafi við afnám deildanna 1991. Hann segir jafnframt að það hljóti að koma til skoðunar það fyrirkomulag að réttur manna til að taka til máls á þinginu sé óendanlegur. „Eins hlýtur að koma til skoðunar það fyrirkomulag við 2. umr. lagafrumvarpa og síðari umr. þingsályktunartillagna að réttur manna til að taka til máls sé óendanlegur, að menn geti haldið umræðu gangandi ad infinitum.“
Steingrímur segir að um þessi atriði þurfi að ná víðtækri samstöðu. „Mikil vinna liggur fyrir og meira og minna fullunnar hugmyndir sem verið hafa til umræðu í hópi þingflokksformanna og nefnda sem skipaðar hafa verið til að fara yfir þessi mál mörg undangengin þing. Þar er við ýmsu hreyft sem væri til mikilla bóta fyrir alla þingmenn. Ég vonast til þess að koma þessari vinnu í farveg strax á næstu dögum,“ segir Steingrímur.
Eitt afkastamesta þing sögunnar
Steingrímur bendir enn fremur á að þinghaldið hér á landi sé langtum lengra en á hinum Norðurlöndunum og víðast hvar í Evrópu. Þinghaldið nú á 149. löggjafarþingi hefur staðið yfir í um 865 klukkustundir og því er ekki enn lokið. „Raunar sker Alþingi sig algerlega úr hvað þetta snertir sem þjóðþing, m.a. sé litið til smæðar þess. Þess vegna er réttmætt að varpa fram þeirri spurningu hvort hlutirnir þurfi áfram að vera svona,“ segir Steingrímur.
Þrátt fyrir að afgreiðsla mála stöðvaðist með öllu um vikna bil vegna ágreinings þá segir Steingrímur að tekist hafi að leiða ýmis stór mál til lykta. Á yfirstandandi þingi hafa alls 120 lög verið samþykkt og 47 ályktanir. „Á ýmsa mælikvarða hygg ég að þetta sé orðið eitt afkastamesta þing sögunnar — og þó ekki alveg búið, samanber það sem áður sagði um þinghald síðar í sumar,“ segir Steingrímur.