Í nýrri aðgerðaáætlun gegn sykurneyslu Íslendinga er lagt til að hækka verð á sælgæti og sykruðum og sykurlausum gosdrykkjum um að minnsta kosti 20 prósent. Samhliða er lagt til að lækka verð á grænmeti og ávöxtum. Aðgerðaáætlunin var unnin af Embætti landlæknis fyrir Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, en kannanir sýna að sykurneysla hér á landi er ein sú mesta á Norðurlöndunum. Frá þessu er greint á Vísi.
Leggja til að á móti verði afnuminn virðisaukaskattur á grænmeti og ávöxtum
Helsta forgangsmálið í aðgerðaáætluninni er að hækka verð á sykruðum og sykurlausum gos- og svaladrykkjum og sælgæti um að minnsta kosti 20 prósent. Í áætluninni segir að hægt sé að framkvæma þetta strax með því að færa þessar vörur í hærra þrep virðisaukaskatts og leggja samhliða á þær vörugjöld. Þau gjöld væri síðan hægt að nýta til að lækka á móti verð á grænmeti og ávöxtum, jafnvel um 10 til 30 prósent, til dæmis með því að afnema virðisaukaskatt. Þannig megi stuðla að auknu aðgengi að þessum hollustuvörum óháð efnahag og auka þannig jöfnuð til heilsu.
Þessi aðgerð er í forgangi í áætluninni þar sem þetta er talin sú aðgerð sem ber hvað mestan árangur til að draga úr sykurneyslu, sérstaklega meðal barna og ungmenna. Kannanir sýna að sykurneysla hér á landi sé langt umfram alþjóðlegar ráðleggingar og mikil í samanburði við hin Norðurlöndin. Mikil sykurneysla hefur áhrif á heilsufar landsmanna með tilheyrandi kostnaði og álagi á heilbrigðiskerfið.
Skipa starfshóp sem mun vinna að innleiðingu áætlunarinnar
Alls eru fjórtán aðgerðir í áætluninni þar á meðal er aðgerð um að fylgja eftir takmörkun á auglýsingum sem beint er til barna, hvatning til matvælaframleiðenda um framleiðslu á hollari matvörum og eftirfylgd með merkingum vara sem innihalda azo-litarefni sem selt er í lausu.
Auk þess er lagt til að heilbrigðisfræðsla sé aukin á öllum skólastigum og boðið sé upp á hollari mat í íþróttamannvirkjum. Samkvæmt umfjöllun Vísis var samþykkt á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag að skipa starfshóp þriggja ráðuneyta sem vinna mun að innleiðingu áætlunarinnar.