Utanríkisráðuneytið hefur tekið saman upplýsingar um kostnað vegna aðkeyptrar lögfræðiráðgjafar sem tengist þingsályktunartillögu um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um breytingu á IV. viðauka (orka) við EES-samninginn.
Samtals nemur kostnaðurinn 16,1 milljón króna, að því er fram kemur í yfirliti frá utanríkisráðuneytinu.
„Við höfum kappkostað að vanda vel til verka í þessu máli og vegna efasemdaradda sem fram komu fengum við færustu sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar og Evrópuréttar til að velta við hverjum steini. Við leituðum meðal annars til þeirra fræðimanna sem lýst höfðu efasemdum um að upptaka þriðja orkupakkans stæðist stjórnarskrá. Vegna ráðlegginga þeirra ákváðum við að setja lagalega fyrirvara, samkvæmt tillögu þeirra, til að tryggja að ákvæði orkupakkans sem varða tengingar yfir landamæri komi ekki til framkvæmda nema Alþingi tæki sérstaka ákvörðun um þær og að lokinni endurskoðun lagarammans. Jafnframt þótti mér nauðsynlegt að fá úr því skorið hvaða þýðingu það hefði ef Ísland drægi sig á fordæmalausan hátt úr þriðja orkupakkanum á lokastigum málsins. Til þess fengum við Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, sem hefur yfirburðaþekkingu á þessu sviði,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, í tilkynningu.
Með samþykkt tillögunnar, sem er enn til meðferðar á Alþingi, er heimilað að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku svonefnds þriðja orkupakka í EES-samninginn, að því er segir í tilkynningu stjórnvalda.
„Álitsgerðirnar sem utanríkisráðuneytið lét vinna í tengslum við þetta mál voru af tvennum toga. Annars vegar voru hafðar uppi efasemdir um að upptaka þriðja orkupakkans gæti haft stjórnskipuleg álitamál í för með sér. Þar hefur verið sérstaklega vísað til þess að ákvæði reglugerðar (EB) nr. 713/2009, um að komið verði á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER), gæti falið í sér framsal á ríkisvaldi sem ekki stæðist stjórnarskrá. Til að fá úr því skorið leitaði utanríkisráðherra til fjögurra sérfræðinga: Stefáns Más Stefánssonar, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst lögfræðings; Skúla Magnússonar, héraðsdómara og dósents við lagadeild Háskóla Íslands, og Davíðs Þórs Björgvinssonar, dómara við Landsrétt. Hins vegar kom fram í umræðum um þingsályktunartillöguna á Alþingi gagnrýni á að ekki hefði verið aflað álits á hugsanlegum afleiðingum þess að synja ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar staðfestingar, í fyrsta sinn í 25 ára sögu EES-samstarfsins. Sökum þess að um fordæmalausa ákvörðun væri að ræða þótti utanríkisráðherra rétt að leita álits sérfræðinga um afleiðingar þess að synja ákvörðun nefndarinnar staðfestingar. Í því skyni var annars vegar leitað til Carls Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, og hins vegar Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík. Álitsgerðirnar voru kynntar utanríkismálanefnd Alþingis 9. maí sl.,“ segir í tilkynningunni.
Heildarkostnaður við þessar álitsgerðir og ráðgjöf liggur nú fyrir og nemur hann samtals 16.106.657 krónum. Þar af nemur kostnaður vegna álitsgerðar Baudenbachers 8.470.737 krónum en innifalið í þeirri fjárhæð er allur kostnaður, þ.e. ferðakostnaður og sérstakt tímagjald vegna vinnuframlags á meðan hann var hér á landi. Þannig kom Baudenbacher fyrir utanríkismálanefnd Alþingis og kynnti álitsgerð sína í íslenskum fjölmiðlum.
Sundurliðaður kostnaður vegna álitsgerðanna og vinnu í tengslum við þær er sem hér segir:
Stefán Már Stefánsson kr. 2.756.520
Friðrik Árni Friðriksson Hirst kr. 1.776.880
Thales slf. (Davíð Þór Björgvinsson) kr. 927.520
Skúli Magnússon kr. 1.500.000
Alþjóða- og Evrópuréttarstofnun HR kr. 675.000
Carl Baudenbacher kr. 8.470.737
Samtals kr. 16.106.657