Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segir að þau sem ekki vilji styðja einkarekna fjölmiðla á Íslandi nema að staða RÚV verði endurmetin, verði að svara því hvers vegna önnur Norðurlönd styðji einkarekna fjölmiðla. Hann segir jafnframt að staða einkarekna fjölmiðla sé alvarleg um allan heim og því sé það mikil rörsýn að halda að RÚV eitt skýri stöðu einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Þetta kemur fram í stöðufærslu Kolbeins á Facebook.
Segir að mikill meirihluti þingsins vilji vernda RÚV
Greint var frá því í dag að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vilji sjá verulegar breytingar á fjölmiðlafrumvarpi Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, áður en það verður lagt fram að nýju í haust. Lilja kynnti fjölmiðlafrumvarpið fyrst í janúar síðastliðnum og í kjölfarið var það sett inn í samráðsgátt stjórnvalda. Fjölmargar athugasemdir bárust við frumvarpinu, meðal annars frá flest öllum fjölmiðlum landsins. Breytingar voru í kjölfarið gerðar á frumvarpinu og nýtt fjölmiðlafrumvarp kynnt á ríkisstjórnarfundi í byrjun maí. Frumvarpinu var dreift á Alþingi þann 20 maí en það komst þó ekki til umræðu á Alþingi áður en þingið fór í sumarleyfi.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að þótt frumvarpið hafi verið afgreitt út úr þingflokknum hafi verið samstaða um að það færi ekki í gegn á þessu þingi. „Ég held að það sé alveg deginum ljósara að það voru ekki allir í þingflokknum sáttir við frumvarpið eins og það var lagt fram. Ráðherra fannst mikilvægt að leggja málið fram svo það fengi kynningu og einhverja umræðu. Það yrði svo verkefni næsta þings að ná þessu í gegn,“ segir Bryndís.
Þá segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við blaðið að það verði að taka á þátttöku RÚV á samkeppnismarkaði. „Ef það er einhver alvara í því að styrkja stöðu sjálfstæðra fjölmiðla þá verða menn að taka á þátttöku RÚV á samkeppnismarkaði þar sem það nýtur yfirburða. Það verður að jafna leikvöllinn,“ segir Óli Björn. Hann segir hins vegar að mikill meirihluti þingsins vilji vernda RÚV.
Ekki að gera einkareknum fjölmiðlum neina greiða
Kolbeinn svarar þessum ummælum þingmanna Sjálfstæðisflokksins í stöðufærslu á Facebook í dag. Þar segir hann að Ísland sé eina Norðurlandaþjóðin sem veitir ekki beina eða óbeina styrki til einkarekinna fjölmiðla. „Þau sem ekki vilja styðja einkarekna fjölmiðla á Íslandi nema að staða Rúv verði endurmetin, verða að svara því hvers vegna önnur Norðurlönd styðji einkarekna fjölmiðla, þrátt fyrir að staða ríkisfjölmiðla sé mjög ólík eftir löndunum,“ segir Kolbeinn.
Hann segir jafnframt að staða Rúv, umfang og eðli starfseminnar, sé sérstakt mál sem sjálfsagt er að ræða en að umræða um stöðu Rúv verði hins vegar ekki hrist fram úr erminni og hvað þá „sem redding í tengslum við stuðning við einkarekna fjölmiðla“. Hann segir að staðan kalli á umfangsmikla skoðun og að sú skoðun megi ekki skila öðru en öflugu Ríkisútvarpi.
Kolbeinn bendir á að staða einkarekinna fjölmiðla sé alvarleg um allan heim og að halda að RÚV eitt skýri stöðuna á Íslandi sé mikil rörsýn. „Þingmenn sem vilja bíða með styrki til fjölmiðla þar til slíkri skoðun er lokið eru ekki að gera einkareknum fjölmiðlum neina greiða. Staða þeirra er þannig að það þarf að bregðast við strax. Og til áréttingar, þá er staða einkarekinna fjölmiðla alvarleg um heim allan. Að halda að Rúv eitt skýri stöðuna á Íslandi er mikil rörsýn.“
Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem veitir ekki beina eða óbeina styrki til einkarekinna fjölmiðla. Þau sem ekki...
Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Monday, June 24, 2019