Helsti óvissuþátturinn þegar kemur að verðbólgunni í hagkerfinu snýr að gengi krónunnar og hvernig það mun þróast næstu misseri. Sé horft rúmlega ár aftur í tímann þá hefur gengi krónunnar veikst um rúmlega 15 prósent gagnvart evru og Bandaríkjadal, en mesta og hraðasta tímabil veikingarinnar kom undir lok síðasta árs, þegar ljóst var að brestir voru komnir í rekstur WOW air.
Eftir fall félagisns hefur krónan veikst gagnvart helstu viðskiptamyntum, en þó ekki mikið. Evran kostar nú 142 krónur og Bandaríkjadalur 125. Þegar krónan var sterkust í fyrra kostaði evran rúmlega 120 krónur og Bandaríkjadalur um 100 krónur.
Seðlabanki Íslands lækkaði í dag vexti niður í 3,75 prósent, og búast flestir greinendur við því að vextir muni halda áfram að lækka. Verðbólga er nú 3,3 prósent, og gerir spá Seðlabankans ráð fyrir að hún fari niður á við, og verði um 2,9 prósent áður en langt um líður.
Í umfjöllun greiningardeildar Arion banka er fjallað um gengisþróun krónunnar, og segir meðal annars að stundargengi hennar sé nú 4,2 prósent veikara en spá Seðlabankans, sem kom út fyrir rúmlega mánuði síðan, gerir ráð fyrir að verði ársmeðaltal hennar. „Krónan veiktist nokkuð í kjölfar birtingu talna um 24% fækkun ferðamanna í maí enda nemur fækkunin nú á fyrstu fimm mánuðum ársins 11,2% þrátt fyrir að aðeins séu komnir tveir mánuðir án WOW air. Áður en þessar tölur komu fram hafði Seðlabankinn spáð 10,5% samdrætti í komum ferðamanna, sem að okkar mati var býsna bjartsýnt og teljum við ólíklegt að sú spá gangi eftir úr þessu. Það má leiða líkur að því að nýjustu ferðamannatölur hafi haft áhrif á væntingar þátttakenda á gjaldeyrismarkaði með tilheyrandi veikingaráhrifum á krónuna. Auk þess sýnast okkur tölur um innlenda fjárfestingu erlendra aðila gefa til kynna minna innstreymi í innlenda vexti heldur en við mátti búast við lækkun bindiskyldu í 0% sem skýrist þó e.t.v. m.a. af minnkandi vaxtamun. Ásamt því hefur útflæði aflandskróna upp á 15 ma.kr í kjölfar þess að aflandskrónufrumvarpið var samþykkt í byrjun mars ýtt undir veikingu krónunnar, þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi stutt við hana með inngripum fyrir um helming þeirrar upphæðar.
Þeir þættir sem gætu aftur á móti stutt við krónuna þegar litið er fram á veginn eru minna útflæði lífeyrissjóða í erlendar eignir, minni kaup Íslendinga á erlendum verðbréfum, horfur á meiri viðskiptaafgangi en við höfðum gert ráð fyrir og auðvitað beiting gjaldeyrisforðans. Að okkar mati er krónan í veikara lagi m.v. undirliggjandi efnahagsstærðir en gengisþróun næstu mánaða mun ráðast af samspili þessara flæðistærða,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.
Hagspá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir 0,4 prósent samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári, en hagvöxtur í fyrra var 4,6 prósent samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.