Engin rök eru fyrir einkavæðingu á póstþjónustu enda á hún að vera órjúfanlegur hluti af almannaþjónustunni að mati BSRB. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bandalaginu.
Fram kom í fjölmiðlum í morgun að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vildi selja Íslandspóst til einkaaðila við fyrsta tækifæri. Hann segir að þegar umbætur á lagaumgjörð og breytingar á rekstri Íslandspóst fari að skila árangri þá sé ekkert því til fyrirstöðu að ríkið selji reksturinn.
BSRB mótmælir harðlega þessum hugmyndum í bréfi sem framkvæmdastjóri bandalagsins hefur sent ráðherra. Í bréfinu segir Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri bandalagsins, ljóst að einkavæðing þess muni hafa í för með verri þjónustu og aukin kostnað fyrir almenning auk þess að hafa slæm áhrif á réttindi starfsmanna.
Hvetur stjórnvöld að hætta við öll áform um einkavæðingu
„Póstþjónusta er samfélagsþjónusta rétt eins og heilbrigðisþjónustan, löggæsla, samgöngur og fleira. Þar þarf fyrst og fremst að horfa til þess að almenningi um allt land sé tryggð góð þjónusta. Slíkt er ekki hægt nema almannaþjónustan sé í höndum hins opinbera sem skipuleggi, stýri og fjármagni hana með jafnan rétt almennings að leiðarljósi,“ segir meðal annars í bréfi BSRB.
Þar er einnig rakið hvernig einkavæðing póstþjónustu í Evrópu hefur ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt með bættri þjónustu og minni kostnaði. Þvert á móti hafi einkavæðingin víða haft í för með sér verri þjónustu, sér í lagi í dreifbýli, hækkandi gjaldskrár og slæm áhrif á vinnuskilyrði og réttindi starfsfólks.
BSRB hvetur til þess að stjórnvöld hætti við öll áform um frekari einkavæðingu samfélagslegra mikilvægra innviða í bréfinu, sem sent var fjármálaráðherra í dag.