Flestir bera mest traust til Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og
menningarmálaráðherra, samkvæmt nýrri könnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdu fyrir Fréttablaðið og frettabladid.is.
Á eftir henni kemur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og njóta þær langmests trausts allra ráðherra. Í Fréttablaðinu kemur fram að stuðningur við Lilju og Katrínu komi úr ólíkum áttum. Katrín njóti mests trausts meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar en meðal andstæðinga hennar njóti Lilja langmests trausts allra ráðherra. Stuðningur við Lilju sé mestur meðal tekjulágra og þeirra sem hafa minnsta menntun.
Þessu er öfugt farið meðal stuðningsmanna Katrínar en traust til hennar styrkist eftir því sem tekjur hækka og menntun eykst. Katrín nýtur mests trausts allra ráðherra meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins. Tæpur þriðjungur þeirra treystir henni best. Þar nefndu rúm 24 prósent Lilju. Meðal landsbyggðarfólks er nafn Lilju hins vegar langoftast nefnt. Þar treysta 39 prósent henni best allra ráðherra. Tæp 18 prósent landsbyggðarfólks treysta Katrínu hins vegar best, að er fram kemur í Fréttablaðinu.
Guðmundur Ingi vinsæll meðal Samfylkingarfólks
Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins treysta Bjarna Benediktssyni best allra ráðherra í 45,6 prósentum tilvika en Þórdísi Kolbrúnu í 17,6 prósentum tilvika. Guðlaugur Þór Þórðarson og Kristján Þór Júlíusson njóta hins vegar báðir minna trausts meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins en þær Lilja og Katrín. Tveir af hverjum tíu stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins bera mest traust til annarrar hvorrar þeirra. En tæp 6 prósent nefndu Guðlaug og rúm 5 prósent Kristján Þór.
Þeir sem treysta Bjarna best koma aðeins úr þremur flokkum; Sjálfstæðisflokknum, Miðflokknum og Viðreisn þar sem rúm tvö prósent segjast treysta honum best. Hann kemst ekki á blað meðal stuðningsmanna annarra flokka.
Auk mikils trausts til Lilju og Katrínar sem njóta stuðnings þvert á flokka bera margir stuðningsmenn Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar mest traust til Guðmundur Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra og hann skýst upp fyrir Lilju og Katrínu meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar þar sem tæpur þriðjungur stuðningsmanna treystir honum best allra ráðherra.
Bjarna minnst treyst
Enn fremur kemur fram í Fréttablaðinu að sá ráðherra sem nýtur minnst trausts meðal þátttakenda hafi verið Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. Helmingur allra kvenna sem tóku þátt sögðust bera minnst traust til hans. Vantraustið er mest meðal þeirra tekjulægstu og þeirra sem hafa minnsta menntun en minnkar jafnt og þétt með hærri tekjum og aukinni menntun.
Niðurstöður könnunarinnar um vantraust til ráðherra meðal þeirra sem styðja ríkisstjórnina eru einnig athyglisverðar en 60 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna bera minnst traust til Bjarna Benediktssonar. Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins vantreysta hins vegar helst heilbrigðisráðherra en 50 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins segjast bera minnst traust til Svandísar Svavarsdóttur.
Framsóknarmenn vantreysta hins vegar Kristjáni Þór Júlíussyni mest allra ráðherra en væri ekki fyrir vantraust þeirra, kæmist landbúnaðarráðherra vart á blað í könnuninni hvort sem litið er til trausts eða vantrausts.
Könnunin var gerð dagana 25. til 27. júní 2019. Hún var send á 2.000 manna könnunarhóp Zenter rannsókna, 18 ára og eldri. Svarhlutfallið var 51 prósent og voru svörin vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.