Fólk á höfuðborgarsvæðinu hefur annað mataræði en fólk á landsbyggðinni, konur og ungt fólk borða meira grænmetisfæði en karlar, en karlar borða oftar rautt kjöt, að því er kemur fram í nýrri könnun MMR. Enn fremur eru matarvenjur mismunandi eftir stjórnmálaskoðun. Könnunin var framkvæmd dagana 23. til 29. maí og var heildarfjöldi svarenda 932 einstaklingar, 18 ára og eldri.
Þriðjungur Íslendinga neytir grænmetisfæðis oft eða alltaf
Í könnuninni kemur fram að 57 prósent Íslendinga neyta mjólkurvara oft eða alltaf og 54 prósent þeirra neyta hvíts kjöts oft eða alltaf. Aðeins minna er um neyslu rauðs kjöts þótt 49 prósent Íslendinga neyti þess oft eða alltaf. Þá segjast 34 prósent neyta grænmetisfæðis oft eða alltaf og telja um 24 til 29 prósent sig oft eða alltaf velja umhverfisvæn eða lífræn matvæli. Um 7 prósent neyta veganfæðis oft eða alltaf en 81 prósent segjast sjaldan eða aldrei velja vegan fæði.
Konur velja frekar grænmetisfæði
Þegar litið er til kyns sést að 43 prósent kvenna borða grænmetisfæði oft eða alltaf á móti 26 prósentum karla. Þá segjst 58 prósent karla oft eða alltaf borða rautt kjöt á móti 39 prósentum kvenna. Ungt fólk kýs frekar grænmetis-, umhverfisvænt-, lífrænt-, eða vegan fæði heldur en þeir sem eldri eru.
Fólk 68 ára og eldri er duglegast við að borða fisk, en 59 prósent þeirra borða fisk oft eða alltaf á móti 28 prósent þeirra sem eru á aldrinum 18 til 29 ára. Fólk á höfuðborgarsvæðinu borðar frekar hvítt kjöt, fisk, grænmetisfæði, lífræn matvæli og veganfæði en fólk á landsbyggðinni.Fólk á landsbyggðinni borðar heldur oft eða alltaf mjólkurvörur og rautt kjöt. Þó er lítill munur á neyslu umhverfisvæns mataræðis á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.
Framsóknarmenn borða helst rautt kjöt og mjólkurvörur
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru það stuðningsmenn Framsóknar sem borða helst rautt kjöt og mjólkurvörur. Þar á eftir koma stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, en þeir neyta enn fremur oftar hvíts kjöts.
Stuðningsmenn Vinstri grænna eru þeir sem oftast eru vegan og kjósa umhverfisvæn matvæli. Stuðningsmenn Samfylkingarinnar eru þeir sem svara að þeir borði oft eða alltaf fisk sem hluta af daglegu mataræði.
Stuðningsmenn Pírata og Vinstri grænna velja oftar lífræn matvæli en stuðningsmenn annarra flokka á meðan stuðningsmenn Pírata og Samfylkingarinnar eru þeir sem sjaldnast segja rautt kjöt vera oft eða alltaf hluta af daglegu mataræði. Stuðningsmenn Viðreisnar eru þeir sem sjaldnast segjast borða fisk sem hluta af daglegu mataræði.
Áhyggjur af hlýnun jarðar hefur áhrif á matarvenjur
Þau sem hafa mjög litlar áhyggjur af hlýnun jarðar neyta oft eða alltaf mjólkurvara og rauðs kjöts. Þau sem hafa mjög miklar áhyggjur af hlýnun jarðar eru þau sem mest svara að þau neyti oft eða alltaf grænmetisfæðis, umhverfisvænna matvæla eða lífrænna matvæla og veganfæðis.
Af þeim sem hafa breytt matarvenjum í kjölfar áhyggna af hlýnun jarðar var neysla grænmetis aukin til muna.