Birgir Þór Harðarson

Breyttar matarvenjur Íslendinga ókunnar – Hafa loftslagsbreytingar áhrif?

Hér á landi virðast fleiri og fleiri sleppa dýra­af­urðum til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Gífurleg aukning hefur orðið á framboði á sérstökum vegan-vörum og sjá má margfalda aukningu í sölu á jurtamjólk og íslensku grænmeti. Óljóst er hins vegar hversu stór hópur fólks þetta er þar sem engin könnun hefur verið gerð á matarvenjum Íslendinga í rúman áratug.

Margt bendir til þess að á Íslandi velji sífellt fleiri græn­ker­a­fæði í stað fæðu sem kemur úr dýrum og dýra­af­urð­um. Fram­boðið af sér­stökum vegan-vörum hefur marg­fald­ast í dag­vöru­versl­unum og eft­ir­spurnin eftir ákveðnum vörum er slík að fram­leiðslan stendur ekki undir henn­i. ­Fjölgað hefur í hópi veit­inga­staða sem bjóða ein­göngu upp á græn­ker­a­fæði, auk þess sem fjöldi staða býður nú einnig upp á græn­kera­rétt­i. Ó­mögu­legt er hins vegar að segja hversu stór hluti Íslend­inga hefur breytt mat­ar­venjum sínum á þann hátt að hætta eða draga úr neyslu dýra­af­urða, þar sem engum tölu­legum upp­lýs­ingum hefur verið safnað um mat­ar­venjur Íslend­inga í rúman ára­tug.

Sala á jurta­mjólk auk­ist um 386 pró­sent 

Mjólk­­ur­­neysla lands­­manna hefur farið minn­k­andi á síð­­­ustu árum og hefur heild­­ar­­sala á drykkj­­ar­­mjólk, þ.e. nýmjólk, létt­­mjólk, und­an­rennu og fjör­­mjólk, ­dreg­ist saman um 7,9 millj­­ónir lítra eða 25 pró­­sent frá árinu 2010. Í heild­ina hefur sala á mjólk­­ur­vörum hjá Sam­bandi afurða­­stöðva í mjólk­ur­­iðn­­að­i dreg­ist saman um 4,1 pró­­sent á síð­­­ustu 9 ár­­um.

Sam­hliða þess­ari þróun hefur bæði eft­ir­spurn og úrval jurta­mjólkur auk­ist tals­vert. Hjá mat­vöru­versl­un­inni Krón­unni hefur salan á jurta­mjólk auk­ist gríð­ar­lega á síð­ustu árum. Á árunum 2015 til 2018 jókst salan um 386 pró­sent. Árið 2016 jókst salan um 95 pró­sent frá árinu á und­an, árið 2016 jókst saman um 92 pró­sent frá árinu á undan og árið 2018 jókst salan um 30 pró­sent frá árinu á und­an­. ­Sig­urður Gunnar Mark­ús­son, fram­kvæmda­stjóri inn­kaupa­sviðs hjá Krón­unni, bendir á í sam­tali við Kjarn­ann að skortur á vöru­fram­boði hafi haft ein­hver áhrif á söl­una í fyrra. 

Oatly framleiðir einnig hafraís, hafrajógúrt og svo framvegis.Til að mynda hefur hafra­mjólk frá sænska fyr­ir­tæk­in­u Oat­ly notið gríð­ar­legra vin­sæla út um allan heim og hafa vin­sældir hafra­mjólk­­ur­inn­ar verið það mikl­ar að Oat­ly hef­ur átt fullt í fangi með að svara eft­ir­­spurn hér á Íslandi sem og víðar og því voru vör­un­ar ófá­an­­leg­ar í versl­un­um hér á landi um hríð í fyrra.

Jó­hanna Ýr Hall­gríms­dótt­ir, mark­aðs­stjóri hjá Inn­n­es, sem hef­ur síð­ast­liðin tvö ár flutt inn hafra­vör­ur frá­ Oat­ly ­sagði í sam­tali við Morg­un­blaðið í des­em­ber í fyrra að á síð­ast­liðn­um árum hefði eft­ir­spurnin eftir hafra­mjólk marg­fald­ast. Að sögn Jóhönnu er eft­ir­spurnin enn að aukast en hún er sann­­færð um að það teng­ist vit­und­­ar­vakn­ingu meðal al­­menn­ings. „Fyrst byrj­aði fólk á að taka ­vegan­ú­ar en ég tel þess­ar lífs­stíls­breyt­ing­ar al­­mennt komn­ar til að vera. Þetta er ekki þessi tísku­­bóla sem marg­ir spáðu í fyrstu. Það er nú jöfn eft­ir­­spurn eft­ir hafra­mjólk allt árið, hvort sem það eru jól eða janú­­ar,“ sagði Jóhanna.

Anna ekki eft­ir­spurn

Brynjar Ing­ólfs­son, inn­kaupa­stjóri Hag­kaups, segir í sam­tali við Kjarn­ann að ­vegan-ostar, sós­ur, drykkir unnir úr plöntu­af­urðum og til­búnir réttir sem flokk­ast sem ­vegan hafi stækkað umtals­vert í veltu og úrvali á und­an­förnum árum. Erfitt sé hins vegar fyrir dag­vöru­búðir að taka saman sölu á öllu sem gæti flokk­ast sem vegan enda eru margar vör­ur ­vegan án þess að vera skil­greindar sér­stak­lega sem slík­ar.

Þá hefur eft­ir­spurn eftir íslensku græn­meti jafn­framt auk­ist á síð­ustu árum. Gunn­laugur Karls­son, fram­kvæmda­stjóri Sölu­fé­lags garð­yrkju­manna, segir í sam­tali við Kjarn­ann að eft­ir­spurn eftir íslensku græn­meti sé gríð­ar­leg en að íslenskir garð­yrkju­bændur hafi ekki getað annað þess­ari eft­ir­spurn. Þar á meðal sé eini sveppa­fram­leið­indi lands­ins, Flúða­svepp­ir, en þó að fyr­ir­tækið fram­leiði ell­efu tonn af sveppum í hverri viku þá nái fyr­ir­tæki ekki að anna eft­ir­spurn eft­ir ­ís­lenskum ­svepp­um. Georg Ott­ós­son, eig­andi Flúða­sveppa, sagði í sam­tali við Vísi um málið að keto- og vegan­fæði lands­manna ætti mik­inn þátt í því hvað sveppa­fram­leiðslan gangi vel.

Enn fremur hef­ur eft­ir­spurn eftir íslenskum höfrum auk­ist. Örn Karls­son, bóndi á Sand­hóli í Skaft­ár­hreppi, hefur tvö­faldað ræktun á höfrum til mann­eldis í ár. Örn segir í sam­tali við Bænda­blaðið að eft­ir­spurn­in sé svo mikil að hann anni henni ekki „Ég hef því miður þurft að neita versl­un­um, mötu­neytum og bök­urum um hafra und­an­farið þar sem þeir eru ein­fald­lega búnir hjá mér,“ segir Örn. Hann segir jafn­framt að til hans hafi leitað aðilar sem hafa áhuga á ýmiss konar vinnslu með hafra eins og að búa til prótein­stangir, hafra­mjólk og annað slíkt. Hann seg­ir ­mögu­leik­ana ó­end­an­lega og því hafi legið beint við að auka rækt­un­ina.

Bára Huld Beck

Sleppa dýra­af­­urðum til að sporna gegn ­lofts­lags­breyt­ing­um 

Á heima­síðu Sam­taka græn­kera á Íslandi segir að þrjár helstu ástæður þess að fólk ger­ist ­vegan ­séu sið­ferð­is-, umhverf­is- og heilsu­fars­á­stæð­ur. Sú afstaða fólks að sleppa dýra­af­urðum til að sporna gegn ­lofts­lags­breyt­ing­um hefur hlotið aukna athygli á und­an­förnum árum en það helst í hendur við að á síð­­­ustu árum hefur fjöldi rann­­sókna verið birtur sem sýnir fram á ein af þeim aðgerðum sem talið er að gæti haft úrslita­á­hrif í bar­átt­unni gegn hlýnun jarðar séu breyttar neyslu­venjur fólks.

Í byrjun októ­ber 2018 kom út ný skýrsla loft­lags­­­sér­­­fræð­inga á vegum Sam­ein­uðu þjóð­anna þar sem skýrt var frá­ ó­hugn­an­­­legri ­stöðu er varðar hlýnun jarð­­­ar. Nið­­­ur­­­stöður skýrsl­unnar sýna að hita­­­stig á jörð­unni mun hækka um 1,5 gráðu fyrir 2030 ef ekki er brugð­ist hratt við. Í skýrsl­unni segir að nauð­­syn­­legt sé að breyt­a því hvernig lönd eru nýtt, hvernig fólk borð­­­ar, hvernig menn ferð­­­ast og svo fram­­­veg­­­is.

Sér­fræð­ingar hjá Mat­væla- og land­bún­að­ar­stofnun Sam­ein­uðu þjóð­anna (FAO) hafa reiknað út losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda frá hefð­bund­inni kjöt­fram­leiðslu og fram­leiðslu dýra­af­urða í heim­in­um. Þegar allt er tekið með í reikn­ing­inn er áætlað að fram­leiðsla á kjöti og dýra­af­urðum valdi 14,5 pró­sent af allri mann­gerðri losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda. Í skýrslu stofn­un­ar­innar segir að ákveðið tækni­legt þak sé á mögu­leikum til minnk­unar á útblæstri svo fram­ar­lega sem ekki er hrein­lega dregið úr fram­leiðslu. Slíkur sam­dráttur í fram­leiðslu skilar engum árangri á heild­ina litið nema neyslan drag­ist líka sam­an. Ef neysla helst óbreytt er ein­ungis verið að flytja útblástur á milli landa. 

Mynd: Birgir Þór Harðarsson

Yfir­­­grip­mis­­­mikil rann­­sókn á áhrifum mat­væla­fram­­leiðslu var einnig birt í vís­inda­­rit­inu Nat­ure í fyrra. Nið­­ur­­staða ­rann­­­sókn­­­ar­inn­ar ­sýndi að gíf­­­ur­­­legur sam­­­dráttur í kjöt­­­­­neyslu gæti haft úrslita­á­hrif í að halda hætt­u­­­legum veð­­­ur­far­s­breyt­ingum í skefj­­um. Sam­­kvæmt rann­­­sókn­inni þarf neysla á Vest­­­ur­löndum á nauta­kjöti að drag­­­ast saman um 90 pró­­­sent og auka þarf neyslu á baunum og belg­­­jurtum fimm­falt. Í rann­­­sóknin er sýnt fram á land­­­bún­­­aður og fram­­­leiðsla dýra­af­­­urða veldur ekki aðeins losun gróð­­­ur­húsa­­­loft­teg­unda frá búpen­ingi, heldur einnig eyð­ing skóga, gríð­­­ar­­­mik­illi vatns­­­­­notkun og súrnun sjá­v­­­­ar.

Vit­und­ar­vakn­ing um kolefn­is­fót­spor

Vit­und­ar­vakn­ing virð­ist hafa orðið meðal almenn­ings um að ein­stak­lingar geti með breyt­ingum á neyslu­venjum sínum dregið úr kolefn­is­fótspori sínu. Í ný­legri umhverfiskönn­un Gallup kom fram að rúm­­lega helm­ingur lands­­manna seg­ist hafa  breytt ­neyslu­venj­u­m sínum í dag­­legum inn­­­kaupum gagn­­gert til þess að minnka umhverf­is­á­hrif á síð­­­ustu tólf mán­uð­­um.

Í könn­unn­i var spurt hvort að við­kom­andi hafði breytt neyslu­venjum sínum í dag­legum inn­kaupum á ein­hvern hátt gagn­gert til að minnka umhverf­is­á­hrif.

Enn frem­ur má sjá í könnun um við­horf neyt­enda til garð­yrkju hér á landi, sem Gallup hefur fram­kvæmt síð­ustu ár fyrir Sölu­fé­lag garð­yrkju bænda, að tals­verð breyt­ingu hefur orðið á mik­il­vægi vistspors þegar kemur að vali neyt­enda á græn­meti.

Í könn­un­inni, sem fram­kvæmd var í febr­úar á þessu ári, var spurt hvaða þrjá helstu kost­i svar­and­i telji að íslenskt græn­meti hafi fram yfir inn­flutt græn­meti. Alls svör­uðu 34,2 pró­sent að minna vist­spor væri einn af helstu kostum íslensks græn­metis fram yfir inn­flutt. Það er tölu­verð breyt­ing frá árinu á undan en í febr­úar 2018 svörðu 10,2 pró­sent að minna vist­spor væri einn af helstu kostum íslensks græn­metis fram yfir inn­flutt. Árið 2002 svör­uðu aðeins 2,4 pró­sent að minna vist­spor væri einn af þremur helstu kostum íslensks græn­met­is.

Mynd: Gallup

Í sömu könnun sögð­ust jafn­framt 68,5 pró­sent að það skiptu þau miklu máli hversu langt inn­flutt græn­meti ferð­ast áður en það fer loks á markað á Íslandi í sömu könn­un. G­unn­laug­ur Karls­son, fram­kvæmda­stjóri Sölu­fé­lags garð­yrkju­manna, segir í sam­tali við Kjarn­ann að sam­kvæmt könn­un­inni sé ljóst að fólk sé nú mun með­vit­að­ara um kolefn­is­fót­spor vara en áður. Á síð­asta ári kom út skýrsla starfs­hóps um raf­orku­mál­efni garð­yrkju­bænda en þar kemur fram að hlut­deild garð­yrkj­unnar í heild­ar­kolefn­is­spori íslenskrar mat­væla­fram­leiðslu er um 1 pró­sent og í mörgum til­fellum mun minna en inn­fluttra garð­yrkju­af­urða.

Kallar eftir því að mat­ar­venjur Íslend­inga verði kann­aðar

Engar nákvæmar tölur liggja þó fyrir hversu margir hér á landi kjósa að borða græn­ker­a­fæðu í stað fæðu úr dýra­af­urð­um. Benja­mín Sig­ur­geirs­son, for­maður Sam­taka græn­kera á Íslandi, segir í sam­tali við Kjarn­ann að hlut­fall þeirra sem eru græn­metisætur og vegan hér á landi hafi aldrei verið kannað af neinu viti svo hann viti til. Hann segir hins vegar að hlut­fallið geti ver­ið í kringum tvö til þrjú pró­sent eða tæp­lega tíu ­þús­und ­manns. Hann telur aftur á móti að hlut­fall þeirra sem ákveðið hafa að minnka dýra­af­urða­neyslu sé að ein­hverju leiti mun meiri. Hann bendir á mjög margir sleppi til dæmis mjólk­ur­vörum úr kúa­mjólk þó þeir séu ekki ­veg­an.

MMR hefur á síð­ustu árum kannað jóla­hefðir Ís­lend­inga en sam­kvæmt nið­ur­stöðu könn­un­ar­innar hefur á síð­ustu árum orðið aukn­ing í neyslu græn­met­is­fæðis á jóla­dag. Alls sögð­ust 3 pró­sent neyta græn­met­is­fæðis á jóla­dag í fyrra. Þá borð­uðu einnig fleiri Íslend­ingar fisk eða sjáv­ar­fang á jóla­dag í fyrra en áður. Sá hópur svar­enda sem borðar græn­met­is­mat á jóla­dag hefur auk­ist tals­vert á síð­ustu árum en árið 2010 sögð­ust 0,6 pró­sent svar­enda neyta græn­met­is­fæðis á jóla­dag en í árið 2018 3 pró­sent. Þá kváð­ust 6 pró­sent þeirra sem voru í ald­urs­hópnum 18 til 29 ára ætla að gæða sér á græn­met­is­fæð­i. 

Breki Karlsson, formaður Neyt­enda­sam­tak­anna. Mynd:Skjátskot/RÚVBreki Karls­son, for­mað­ur­ ­Neyt­enda­sam­tak­anna, hefur kallað eftir því að mat­ar­venjur Íslend­inga verði kann­að­ar. Hann segir það löngu tíma­bært en síð­asta könnun var gerð fyrir rúmum ára­tug. Breki greindi frá því, í sam­tali við frétta­stofu Stöðvar 2, að í nágranna­löndum Íslands fjölgi hratt í hópi ungs fólks sem leggi áherslu á ýmis konar græn­met­is­fæði. Í nýlegri könnun sem gerð var í Sví­þjóð kom fram að nú neytir um fjórð­ungur fólks þar í landi undir þrí­tugu græn­met­is­fæð­is.

„Þetta er þróun sem ég hef heyrt að sé að byrja hér, við erum nokkrum árum á eftir Skand­in­av­íu. Þetta er þróun sem fer undir rad­ar­inn hjá okkur af því að við gerum engar rann­sóknir til að kanna þessi mál,“ segir Breki.

Hann kallar því eftir því að gerðar verði víð­tækar neyt­enda­rann­sóknir hér á landi svo móta megi fram­tíð­ar­sýn um mat­ar­venjur lands­manna.

Komið á borð stjórn­valda 

Kolefn­is­fót­spor mat­væla er ekki aðeins komið á borð fyr­ir­tækja og neyt­enda heldur einnig stjórn­valda. Í mat­ar­stefnu Reykja­vík­ur­borgar sem sam­þykkt var í maí 2018 segir að stór hluti los­unar gróð­ur­húsa­loft­teg­unda vegna mat­væla­fram­leiðslu sé vegna kjöt­fram­leiðslu, mat­ar­sóunar og flutn­ings á mat. Í sam­ræmi við lofts­lags­mark­mið borg­ar­innar er gert ráð fyrir að minnka kolefn­is­spor ­borg­ar­innar og mæla árang­ur­inn reglu­lega. „Út­reikn­ingur á losun vegna inn­kaupa og fram­leiðslu á mat eru flóknir og falla undir óbeina los­un. Nokkrum þum­al­putta­reglum er þó hægt að fylgja; kolefn­is­spor minnkar við aukna neyslu fæðu úr jurt­arík­inu á kostnað dýra­af­urða, og flutn­ingar á mat­vöru með flugi hafa stórt fót­spor sam­an­borið við skipa­flutn­inga,“ segir í stefn­unni.

Í stefn­unni má finna mark­mið um aukna neysla fæðu úr jurt­arík­inu í mötu­neytum borg­ar­inn­ar. Ein af aðgerðum til að ná því mark­miði er að græn­met­is­réttir eða græn­met­isút­gáfa af rétti dags­ins, standi til boða í öllum stærri mötu­neytum borg­ar­inn­ar. Sam­kvæmt stefn­unni á inn­leið­ing á aðgerð­inni á að hefj­ist á þessu ári. 

Í matarstefnu Reykjavíkurborgar segir að stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda vegna matvælaframleiðslu sé vegna kjötframleiðslu, matarsóunar og flutnings á mat.
Birgir Þór Harðarson

Í inn­kaupa­stefnu mat­væla fyrir rík­is­að­ila sem sam­þykkt var á fundi rík­i­s­tjórn­ar­innar síð­asta föstu­dag er tekið í svip­aðan streng. Í stefn­unni segir að íslenska ríkið kaupi mat­væli fyrir um þrjá millj­arða króna á ári og sem stór­kaup­andi geti það haft víð­tæk áhrif á eft­ir­spurn eftir mat­væl­um, stuðlað að umhverf­is­vænni inn­kaupum og dregið úr kolefn­is­spori og eflt nýsköp­un. Sjálf­bært matar­æði er í for­grunni í stefn­unni og tekið er fram að í opin­berum ráð­legg­ingum um matar­æði skal tekið með­ í reikn­ing­inn atriði eins og kolefn­is­spor mat­væla og auð­linda­notk­un. Sam­kvæmt skýrsl­unni ein­kenn­ist sjálf­bært matar­æði meðal ann­ars af meiri neyslu ­fæðis úr jurt­arík­inu en minni neyslu á rauðu kjöti, unn­um kjöt­vörum og öðrum mikið unnum mat­væl­um.

Í könnun starfs­hóps­ins sem vann inn­kaupa­stefn­una fyrir sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra kom fram að tæp 72 pró­sent pró­sent stofn­ana ­bjóða nú þegar upp á græn­met­is­rétti viku­lega eða oftar og þar af tæp 36 pró­sent dag­lega. Tæp 30 pró­sent stofn­ana sögð­ust bjóða upp á ­vegan­rétti viku­lega eða oftar en 39 pró­sent aldrei. Í stefn­unni segir að æski­legt sé að boðið sé upp á græn­met­is­rétt­i/­vegan­rétti sem val­kost í mötu­neyt­um.

Í nýrri loft­lags­­stefn­u Stjórn­ar­ráðs­ins um sam­drátt í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda og kolefn­is­jöfnun tíu ráðu­neyta má finna grein­ingu á kolefn­is­­fótspori Stjórn­­­ar­ráðs­ins og aðgerðir til að draga úr því. ­Stjórn­­­ar­ráðið hyggst draga úr losun sinni á koltví­­­sýr­ing um sam­tals 40 pró­­sent fyrir árið 2030. Ein af aðgerðum Stjórna­ráðs­ins til að draga úr losun er að hlutur græn­metis og fisks hefur verið auk­inn í mötu­neytum ráðu­neyt­anna með það í huga að draga úr neyslu á rauðu kjöti þar sem það veldur meiri losun koltví­sýr­ings en aðrir fæðu­flokk­ar.

Í innkaupastefnu stjórnvalda segir að íslenska ríkið kaupi matvæli fyrir um þrjá milljarða króna á ári og sem stórkaupandi getur það haft víðtæk áhrif á eftirspurn eftir matvælum, stuðlað að umhverfisvænni innkaupum og dregið úr kolefnisspori og eflt nýsköpun.
Bára Huld Beck

Dap­ur­legt að minnkun kjöt­neyslu hafi ekki verið í aðgerða­á­ætl­un­inni

Umhverf­is- og auð­linda­ráðu­­­neytið kynnti í sept­­­em­ber á síð­­asta ári aðgerða­á­ætlun í loft­lags­­­mál­um­. ­Sam­­­kvæmt heima­­­síð­u ráðu­­­neyt­is­ins á áætl­­­unin að vera horn­­­steinn og leið­­­ar­­­ljós um útfærslu á stefnu stjórn­­­­­valda í mála­­­flokkn­­­um. Í heild voru settar fram 34 aðgerðir í áætl­­un­inni en engin af þeim aðgerðum snýr að mat­­ar­venjum fólks og hvergi í skýrsl­unni er minnst á vit­und­­ar­vakn­ingu um kosti græn­ker­a­fæð­is.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona VG. Mynd: Bára Huld BeckRósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, þing­kona Vinstri grænna, hélt stutt erindi á mál­þingi sem Sam­tök græn­kera á Íslandi stóðu fyrir í tengslum við Vegan­úar 2019.

Rósa Björk fjall­aði meðal ann­ars um aðgerðir stjórn­valda en hún minnt­ist á að það væri miður að ekki hefði verið komið inn á minnkun kjöt­neyslu í aðgerða­á­ætl­un­inn­i. 

„Það er svo­lítið mikið dap­ur­legt að það sé ekki inn í aðgerða­á­ætlun rík­is­stjórnar um loft­lags­mál. En þetta er fyrsta skref­ið. Þess vegna er það gríð­ar­lega mik­il­vægt að við sem erum hér og við sem erum á þingi sem höfum áhuga á þessum málum krefj­umst þess að þetta komi inn í næsta skrefi. Því þetta er tví­mæla­laust stór partur af því,“ sagði hún­.  

Rósa Björk nefndi jafn­framt að ríkið gæti notað alls­konar íviln­anir og nið­ur­greiðslur til að hvetja til betri neyslu­hátta. Hún nefndi þar skatta­kerfið sem öfl­ugt tæki til þess að nota til að hafa áhrif á neyslu­venjur og tal­aði hún þar til að mynda um syk­ur­skatt­inn. Að hennar mati ætti að nota þetta tæki í meira mæli, þar á meðal í nið­ur­greiðslu á raf­orku til græn­met­is­rækt­un­ar. 

Andrés Ingi, þingmaður VG.Sam­starfs­fé­lagi Rósu Andrés Ingi Jóns­­son, þing­­maður Vinstri grænna, hefur einnig vakið athygli á notkun skatta sem lið í aðgerðum gegn loft­lags­breyt­ing­um. Í stöð­u­­upp­færslu á Face­book fyrr á þessu ári benti Andrés á að mögu­lega væri kjöt­­skattur rök­rétt næsta skref, bæði til að bregð­­ast við áhrifum á kjöt­­­neyslu á heilsu­far en ekki síður sem liður í aðgerðum gegn loft­lags­breyt­ingum af manna­völd­­um. Hann benti jafn­framt á að hægt væri til dæmis að nota skatt­­tekj­­urnar til að hjálpa bændum að verða kolefn­is­hlut­­laus­ir, ásamt því væri hægt að styðja bændur í að taka upp fram­­leiðslu á græn­­meti og fræða almenn­ing um breytta neyslu­hætti.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBirna Stefánsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar