Birgir Þór Harðarson

Breyttar matarvenjur Íslendinga ókunnar – Hafa loftslagsbreytingar áhrif?

Hér á landi virðast fleiri og fleiri sleppa dýra­af­urðum til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Gífurleg aukning hefur orðið á framboði á sérstökum vegan-vörum og sjá má margfalda aukningu í sölu á jurtamjólk og íslensku grænmeti. Óljóst er hins vegar hversu stór hópur fólks þetta er þar sem engin könnun hefur verið gerð á matarvenjum Íslendinga í rúman áratug.

Margt bendir til þess að á Íslandi velji sífellt fleiri grænkerafæði í stað fæðu sem kemur úr dýrum og dýraafurðum. Framboðið af sérstökum vegan-vörum hefur margfaldast í dagvöruverslunum og eftirspurnin eftir ákveðnum vörum er slík að framleiðslan stendur ekki undir henni. Fjölgað hefur í hópi veitingastaða sem bjóða eingöngu upp á grænkerafæði, auk þess sem fjöldi staða býður nú einnig upp á grænkerarétti. Ómögulegt er hins vegar að segja hversu stór hluti Íslendinga hefur breytt matarvenjum sínum á þann hátt að hætta eða draga úr neyslu dýraafurða, þar sem engum tölulegum upplýsingum hefur verið safnað um matarvenjur Íslendinga í rúman áratug.

Sala á jurtamjólk aukist um 386 prósent 

Mjólk­ur­neysla lands­manna hefur farið minnk­andi á síð­ustu árum og hefur heild­ar­sala á drykkj­ar­mjólk, þ.e. nýmjólk, létt­mjólk, und­an­rennu og fjör­mjólk, dreg­ist saman um 7,9 millj­ónir lítra eða 25 pró­sent frá árinu 2010. Í heildina hefur sala á mjólk­ur­vörum hjá Sambandi afurða­stöðva í mjólkur­iðn­að­i dreg­ist saman um 4,1 pró­sent á síð­ustu 9 ár­um.

Samhliða þessari þróun hefur bæði eftirspurn og úrval jurtamjólkur aukist talsvert. Hjá matvöruversluninni Krónunni hefur salan á jurtamjólk aukist gríðarlega á síðustu árum. Á árunum 2015 til 2018 jókst salan um 386 prósent. Árið 2016 jókst salan um 95 prósent frá árinu á undan, árið 2016 jókst saman um 92 prósent frá árinu á undan og árið 2018 jókst salan um 30 prósent frá árinu á undan. Sigurður Gunnar Markússon, framkvæmdastjóri innkaupasviðs hjá Krónunni, bendir á í samtali við Kjarnann að skortur á vöruframboði hafi haft einhver áhrif á söluna í fyrra. 

Oatly framleiðir einnig hafraís, hafrajógúrt og svo framvegis.Til að mynda hefur haframjólk frá sænska fyrirtækinu Oatly notið gríðarlegra vinsæla út um allan heim og hafa vinsældir haframjólk­ur­inn­ar verið það mikl­ar að Oatly hef­ur átt fullt í fangi með að svara eft­ir­spurn hér á Íslandi sem og víðar og því voru vör­un­ar ófá­an­leg­ar í versl­un­um hér á landi um hríð í fyrra.

Jó­hanna Ýr Hall­gríms­dótt­ir, markaðsstjóri hjá Innn­es, sem hef­ur síðastliðin tvö ár flutt inn hafra­vör­ur frá Oatly sagði í samtali við Morgunblaðið í desember í fyrra að á síðastliðnum árum hefði eftirspurnin eftir haframjólk margfaldast. Að sögn Jóhönnu er eftirspurnin enn að aukast en hún er sann­færð um að það teng­ist vit­und­ar­vakn­ingu meðal al­menn­ings. „Fyrst byrjaði fólk á að taka veganúar en ég tel þess­ar lífs­stíls­breyt­ing­ar al­mennt komn­ar til að vera. Þetta er ekki þessi tísku­bóla sem marg­ir spáðu í fyrstu. Það er nú jöfn eft­ir­spurn eft­ir haframjólk allt árið, hvort sem það eru jól eða janú­ar,“ sagði Jóhanna.

Anna ekki eftirspurn

Brynjar Ingólfsson, innkaupastjóri Hagkaups, segir í samtali við Kjarnann að vegan-ostar, sósur, drykkir unnir úr plöntuafurðum og tilbúnir réttir sem flokkast sem vegan hafi stækkað umtalsvert í veltu og úrvali á undanförnum árum. Erfitt sé hins vegar fyrir dagvörubúðir að taka saman sölu á öllu sem gæti flokkast sem vegan enda eru margar vörur vegan án þess að vera skilgreindar sérstaklega sem slíkar.

Þá hefur eftirspurn eftir íslensku grænmeti jafnframt aukist á síðustu árum. Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, segir í samtali við Kjarnann að eftirspurn eftir íslensku grænmeti sé gríðarleg en að íslenskir garðyrkjubændur hafi ekki getað annað þessari eftirspurn. Þar á meðal sé eini sveppaframleiðindi landsins, Flúðasveppir, en þó að fyrirtækið framleiði ellefu tonn af sveppum í hverri viku þá nái fyrirtæki ekki að anna eftirspurn eftir íslenskum sveppum. Georg Ottósson, eigandi Flúðasveppa, sagði í samtali við Vísi um málið að keto- og veganfæði landsmanna ætti mikinn þátt í því hvað sveppaframleiðslan gangi vel.

Enn fremur hefur eftirspurn eftir íslenskum höfrum aukist. Örn Karlsson, bóndi á Sandhóli í Skaftárhreppi, hefur tvöfaldað ræktun á höfrum til manneldis í ár. Örn segir í samtali við Bændablaðið að eftirspurnin sé svo mikil að hann anni henni ekki „Ég hef því miður þurft að neita verslunum, mötuneytum og bökurum um hafra undanfarið þar sem þeir eru einfaldlega búnir hjá mér,“ segir Örn. Hann segir jafnframt að til hans hafi leitað aðilar sem hafa áhuga á ýmiss konar vinnslu með hafra eins og að búa til próteinstangir, haframjólk og annað slíkt. Hann segir möguleikana óendanlega og því hafi legið beint við að auka ræktunina.

Bára Huld Beck

Sleppa dýra­af­urðum til að sporna gegn loftslagsbreytingum 

Á heimasíðu Samtaka grænkera á Íslandi segir að þrjár helstu ástæður þess að fólk gerist vegan séu siðferðis-, umhverfis- og heilsufarsástæður. Sú afstaða fólks að sleppa dýraafurðum til að sporna gegn loftslagsbreytingum hefur hlotið aukna athygli á undanförnum árum en það helst í hendur við að á síð­ustu árum hefur fjöldi rann­sókna verið birtur sem sýnir fram á ein af þeim aðgerðum sem talið er að gæti haft úrslita­á­hrif í bar­átt­unni gegn hlýnun jarðar séu breyttar neyslu­venjur fólks.

Í byrjun októ­ber 2018 kom út ný skýrsla loft­lags­­sér­­fræð­inga á vegum Sam­ein­uðu þjóð­anna þar sem skýrt var frá­ ó­hugn­an­­legri ­stöðu er varðar hlýnun jarð­­ar. Nið­­ur­­stöður skýrsl­unnar sýna að hita­­stig á jörð­unni mun hækka um 1,5 gráðu fyrir 2030 ef ekki er brugð­ist hratt við. Í skýrsl­unni segir að nauð­syn­legt sé að breyt­a því hvernig lönd eru nýtt, hvernig fólk borð­­ar, hvernig menn ferð­­ast og svo fram­­veg­­is.

Sérfræðingar hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hafa reiknað út losun gróðurhúsalofttegunda frá hefðbundinni kjötframleiðslu og framleiðslu dýraafurða í heiminum. Þegar allt er tekið með í reikninginn er áætlað að framleiðsla á kjöti og dýraafurðum valdi 14,5 prósent af allri manngerðri losun gróðurhúsalofttegunda. Í skýrslu stofnunarinnar segir að ákveðið tæknilegt þak sé á möguleikum til minnkunar á útblæstri svo framarlega sem ekki er hreinlega dregið úr framleiðslu. Slíkur samdráttur í framleiðslu skilar engum árangri á heildina litið nema neyslan dragist líka saman. Ef neysla helst óbreytt er einungis verið að flytja útblástur á milli landa. 

Mynd: Birgir Þór Harðarsson

Yfir­grip­mis­mikil rann­sókn á áhrifum mat­væla­fram­leiðslu var einnig birt í vís­inda­rit­inu Nat­ure í fyrra. Nið­ur­staða ­rann­­sókn­­ar­inn­ar ­sýndi að gíf­­ur­­legur sam­­dráttur í kjöt­­­neyslu gæti haft úrslita­á­hrif í að halda hætt­u­­legum veð­­ur­far­s­breyt­ingum í skefj­um. Sam­kvæmt rann­­sókn­inni þarf neysla á Vest­­ur­löndum á nauta­kjöti að drag­­ast saman um 90 pró­­sent og auka þarf neyslu á baunum og belg­­jurtum fimm­falt. Í rann­­sóknin er sýnt fram á land­­bún­­aður og fram­­leiðsla dýra­af­­urða veldur ekki aðeins losun gróð­­ur­húsa­­loft­teg­unda frá búpen­ingi, heldur einnig eyð­ing skóga, gríð­­ar­­mik­illi vatns­­­notkun og súrnun sjá­v­­­ar.

Vitundarvakning um kolefnisfótspor

Vitundarvakning virðist hafa orðið meðal almennings um að einstaklingar geti með breyt­ingum á neysluvenjum sínum dregið úr kolefn­isfótspori sínu. Í nýlegri umhverfiskönnun Gallup kom fram að rúm­lega helm­ingur lands­manna segist hafa  breytt ­neyslu­venj­u­m sínum í dag­legum inn­kaupum gagn­gert til þess að minnka umhverf­is­á­hrif á síð­ustu tólf mán­uð­um.

Í könn­unn­i var spurt hvort að við­kom­andi hafði breytt neyslu­venjum sínum í dag­legum inn­kaupum á ein­hvern hátt gagn­gert til að minnka umhverf­is­á­hrif.

Enn fremur má sjá í könnun um viðhorf neytenda til garðyrkju hér á landi, sem Gallup hefur framkvæmt síðustu ár fyrir Sölufélag garðyrkju bænda, að talsverð breytingu hefur orðið á mikilvægi vistspors þegar kemur að vali neytenda á grænmeti.

Í könnuninni, sem framkvæmd var í febrúar á þessu ári, var spurt hvaða þrjá helstu kosti svarandi telji að íslenskt grænmeti hafi fram yfir innflutt grænmeti. Alls svöruðu 34,2 prósent að minna vistspor væri einn af helstu kostum íslensks grænmetis fram yfir innflutt. Það er töluverð breyting frá árinu á undan en í febrúar 2018 svörðu 10,2 prósent að minna vistspor væri einn af helstu kostum íslensks grænmetis fram yfir innflutt. Árið 2002 svöruðu aðeins 2,4 prósent að minna vistspor væri einn af þremur helstu kostum íslensks grænmetis.

Mynd: Gallup

Í sömu könnun sögðust jafnframt 68,5 prósent að það skiptu þau miklu máli hversu langt innflutt grænmeti ferðast áður en það fer loks á markað á Íslandi í sömu könnun. Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, segir í samtali við Kjarnann að samkvæmt könnuninni sé ljóst að fólk sé nú mun meðvitaðara um kolefnisfótspor vara en áður. Á síðasta ári kom út skýrsla starfshóps um raforkumálefni garðyrkjubænda en þar kemur fram að hlutdeild garðyrkjunnar í heildarkolefnisspori íslenskrar matvælaframleiðslu er um 1 prósent og í mörgum tilfellum mun minna en innfluttra garðyrkjuafurða.

Kallar eftir því að matarvenjur Íslendinga verði kannaðar

Engar nákvæmar tölur liggja þó fyrir hversu margir hér á landi kjósa að borða grænkerafæðu í stað fæðu úr dýraafurðum. Benjamín Sigurgeirsson, formaður Samtaka grænkera á Íslandi, segir í samtali við Kjarnann að hlutfall þeirra sem eru grænmetisætur og vegan hér á landi hafi aldrei verið kannað af neinu viti svo hann viti til. Hann segir hins vegar að hlutfallið geti verið í kringum tvö til þrjú prósent eða tæplega tíu þúsund manns. Hann telur aftur á móti að hlutfall þeirra sem ákveðið hafa að minnka dýraafurðaneyslu sé að einhverju leiti mun meiri. Hann bendir á mjög margir sleppi til dæmis mjólkurvörum úr kúamjólk þó þeir séu ekki vegan.

MMR hefur á síðustu árum kannað jólahefðir Íslendinga en samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar hefur á síðustu árum orðið aukning í neyslu grænmetisfæðis á jóladag. Alls sögðust 3 prósent neyta grænmetisfæðis á jóladag í fyrra. Þá borðuðu einnig fleiri Íslendingar fisk eða sjávarfang á jóladag í fyrra en áður. Sá hópur svarenda sem borðar grænmetismat á jóladag hefur aukist talsvert á síðustu árum en árið 2010 sögðust 0,6 prósent svarenda neyta grænmetisfæðis á jóladag en í árið 2018 3 prósent. Þá kváðust 6 prósent þeirra sem voru í aldurshópnum 18 til 29 ára ætla að gæða sér á grænmetisfæði. 

Breki Karlsson, formaður Neyt­enda­sam­tak­anna. Mynd:Skjátskot/RÚVBreki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hefur kallað eftir því að matarvenjur Íslendinga verði kannaðar. Hann segir það löngu tímabært en síðasta könnun var gerð fyrir rúmum áratug. Breki greindi frá því, í samtali við fréttastofu Stöðvar 2, að í nágrannalöndum Íslands fjölgi hratt í hópi ungs fólks sem leggi áherslu á ýmis konar grænmetisfæði. Í nýlegri könnun sem gerð var í Svíþjóð kom fram að nú neytir um fjórðungur fólks þar í landi undir þrítugu grænmetisfæðis.

„Þetta er þróun sem ég hef heyrt að sé að byrja hér, við erum nokkrum árum á eftir Skandinavíu. Þetta er þróun sem fer undir radarinn hjá okkur af því að við gerum engar rannsóknir til að kanna þessi mál,“ segir Breki.

Hann kallar því eftir því að gerðar verði víðtækar neytendarannsóknir hér á landi svo móta megi framtíðarsýn um matarvenjur landsmanna.

Komið á borð stjórnvalda 

Kolefnisfótspor matvæla er ekki aðeins komið á borð fyrirtækja og neytenda heldur einnig stjórnvalda. Í matarstefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í maí 2018 segir að stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda vegna matvælaframleiðslu sé vegna kjötframleiðslu, matarsóunar og flutnings á mat. Í samræmi við loftslagsmarkmið borgarinnar er gert ráð fyrir að minnka kolefnisspor borgarinnar og mæla árangurinn reglulega. „Útreikningur á losun vegna innkaupa og framleiðslu á mat eru flóknir og falla undir óbeina losun. Nokkrum þumalputtareglum er þó hægt að fylgja; kolefnisspor minnkar við aukna neyslu fæðu úr jurtaríkinu á kostnað dýraafurða, og flutningar á matvöru með flugi hafa stórt fótspor samanborið við skipaflutninga,“ segir í stefnunni.

Í stefnunni má finna markmið um aukna neysla fæðu úr jurtaríkinu í mötuneytum borgarinnar. Ein af aðgerðum til að ná því markmiði er að grænmetisréttir eða grænmetisútgáfa af rétti dagsins, standi til boða í öllum stærri mötuneytum borgarinnar. Samkvæmt stefnunni á innleiðing á aðgerðinni á að hefjist á þessu ári. 

Í matarstefnu Reykjavíkurborgar segir að stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda vegna matvælaframleiðslu sé vegna kjötframleiðslu, matarsóunar og flutnings á mat.
Birgir Þór Harðarson

Í innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila sem samþykkt var á fundi ríkistjórnarinnar síðasta föstudag er tekið í svipaðan streng. Í stefnunni segir að íslenska ríkið kaupi matvæli fyrir um þrjá milljarða króna á ári og sem stórkaupandi geti það haft víðtæk áhrif á eftirspurn eftir matvælum, stuðlað að umhverfisvænni innkaupum og dregið úr kolefnisspori og eflt nýsköpun. Sjálfbært mataræði er í forgrunni í stefnunni og tekið er fram að í opinberum ráðleggingum um mataræði skal tekið með í reikninginn atriði eins og kolefnisspor matvæla og auðlindanotkun. Samkvæmt skýrslunni einkennist sjálfbært mataræði meðal annars af meiri neyslu fæðis úr jurtaríkinu en minni neyslu á rauðu kjöti, unnum kjötvörum og öðrum mikið unnum matvælum.

Í könnun starfshópsins sem vann innkaupastefnuna fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom fram að tæp 72 prósent prósent stofnana bjóða nú þegar upp á grænmetisrétti vikulega eða oftar og þar af tæp 36 prósent daglega. Tæp 30 prósent stofnana sögðust bjóða upp á veganrétti vikulega eða oftar en 39 prósent aldrei. Í stefnunni segir að æskilegt sé að boðið sé upp á grænmetisrétti/veganrétti sem valkost í mötuneytum.

Í nýrri loft­lags­stefn­u Stjórnarráðsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun tíu ráðuneyta má finna grein­ingu á kolefn­is­fótspori Stjórn­ar­ráðs­ins og aðgerðir til að draga úr því. Stjórn­ar­ráðið hyggst draga úr losun sinni á koltví­sýr­ing um sam­tals 40 pró­sent fyrir árið 2030. Ein af aðgerðum Stjórnaráðsins til að draga úr losun er að hlutur grænmetis og fisks hefur verið aukinn í mötuneytum ráðuneytanna með það í huga að draga úr neyslu á rauðu kjöti þar sem það veldur meiri losun koltvísýrings en aðrir fæðuflokkar.

Í innkaupastefnu stjórnvalda segir að íslenska ríkið kaupi matvæli fyrir um þrjá milljarða króna á ári og sem stórkaupandi getur það haft víðtæk áhrif á eftirspurn eftir matvælum, stuðlað að umhverfisvænni innkaupum og dregið úr kolefnisspori og eflt nýsköpun.
Bára Huld Beck

Dapurlegt að minnkun kjötneyslu hafi ekki verið í aðgerðaáætluninni

Umhverf­is- og auð­linda­ráðu­­neytið kynnti í sept­­em­ber á síð­asta ári aðgerða­á­ætlun í loft­lags­­mál­um­. ­Sam­­kvæmt heima­­síð­u ráðu­­neyt­is­ins á áætl­­unin að vera horn­­steinn og leið­­ar­­ljós um útfærslu á stefnu stjórn­­­valda í mála­­flokkn­­um. Í heild voru settar fram 34 aðgerðir í áætl­un­inni en engin af þeim aðgerðum snýr að mat­ar­venjum fólks og hvergi í skýrsl­unni er minnst á vit­und­ar­vakn­ingu um kosti grænkerafæðis.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona VG. Mynd: Bára Huld BeckRósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna, hélt stutt erindi á málþingi sem Samtök grænkera á Íslandi stóðu fyrir í tengslum við Veganúar 2019.

Rósa Björk fjallaði meðal annars um aðgerðir stjórnvalda en hún minntist á að það væri miður að ekki hefði verið komið inn á minnkun kjötneyslu í aðgerðaáætluninni. 

„Það er svolítið mikið dapurlegt að það sé ekki inn í aðgerðaáætlun ríkisstjórnar um loftlagsmál. En þetta er fyrsta skrefið. Þess vegna er það gríðarlega mikilvægt að við sem erum hér og við sem erum á þingi sem höfum áhuga á þessum málum krefjumst þess að þetta komi inn í næsta skrefi. Því þetta er tvímælalaust stór partur af því,“ sagði hún.  

Rósa Björk nefndi jafnframt að ríkið gæti notað allskonar ívilnanir og niðurgreiðslur til að hvetja til betri neysluhátta. Hún nefndi þar skattakerfið sem öflugt tæki til þess að nota til að hafa áhrif á neysluvenjur og talaði hún þar til að mynda um sykurskattinn. Að hennar mati ætti að nota þetta tæki í meira mæli, þar á meðal í niðurgreiðslu á raforku til grænmetisræktunar. 

Andrés Ingi, þingmaður VG.Samstarfsfélagi Rósu Andrés Ingi Jóns­son, þing­maður Vinstri grænna, hefur einnig vakið athygli á notkun skatta sem lið í aðgerðum gegn loftlagsbreytingum. Í stöðu­upp­færslu á Facebook fyrr á þessu ári benti Andrés á að mögulega væri kjöt­skattur rök­rétt næsta skref, bæði til að bregð­ast við áhrifum á kjöt­neyslu á heilsu­far en ekki síður sem liður í aðgerðum gegn loft­lags­breyt­ingum af manna­völd­um. Hann benti jafnframt á að hægt væri til dæmis að nota skatt­tekj­urnar til að hjálpa bændum að verða kolefn­is­hlut­laus­ir, ásamt því væri hægt að styðja bændur í að taka upp fram­leiðslu á græn­meti og fræða almenn­ing um breytta neyslu­hætti.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBirna Stefánsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar