Þrír umsækjendur af sextán um embætti seðlabankastjóra hafa dregið umsóknir sínar til baka. Þetta eru Benedikt Jóhannesson, Hannes Jóhannsson og Þorsteinn Þorgeirsson, samkvæmt svari frá forsætisráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans, en áður hafði komið fram að tveir hefðu dregið umsókn sína til baka, til viðbótar við Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra og formann Viðreisnar.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, mun skipa seðlabankastjóra á næstunni, sem mun taka við af Má Guðmundssyni, sem hættir nú á sumarmánuðum, eftir tíu ár í starfi. Forsætisráðherra hefur nú umsögn hæfisnefndar til skoðunar.
Eins og áður var greint frá á vef Kjarnans, þá mat hæfisnefnd skipuð af forsætisráðherra, fjóra umsækjendur mjög vel hæfa, en umsækjendur höfðu svo tíma til 19. júní til að skila inn athugasemdum. Minnst sjö umsækjendur gerðu athugasemdir við mat hæfisnefndarinnar.
Þessir sem voru metnir mjög vel hæfir voru Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, Jón Daníelsson, prófessor við LSE í London, og Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra og fyrrverandi aðalhagfræðingur og aðstoðarseðlabankastjóri. Allir hafa þeir doktorspróf í hagfræði.
Einn umsækjenda, sem var nemi, uppfyllti ekki skilyrði til að vera hæfur í starfið og er því ekki í flokkun eftir hæfi, hjá nefndinni.
Formaður nefndarinnar er Sigríður Benediktsdóttir, en með henni í nefndinni eru Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, og Þórunn Guðmundsdóttir, hæstaréttarlögmaður og varaformaður bankaráðs, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands.
Umsækjendur voru upphaflega sextán talsins:
Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra
Ásgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands
Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Háskóla Íslands
Benedikt Jóhannesson, fyrrv. fjármála- og efnahagsráðherra
Gunnar Haraldsson, hagfræðingur
Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur
Gylfi Magnússon, dósent
Hannes Jóhannsson, hagfræðingur
Jón Daníelsson, prófessor
Jón G. Jónsson, forstjóri bankasýslu ríkisins
Katrín Ólafsdóttir, lektor
Salvör Sigríður Jónsdóttir, nemi
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri
Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar í Seðlabanka Íslands
Vilhjálmur Bjarnason, lektor
Þorsteinn Þorgeirsson, sérstakur ráðgjafi á skrifstofu seðlabankastjóra