Ný útlán í bankakerfinu hafa dregist saman að undanförnu, meðal annars vegna breytinga á regluverki. Æskilegt væri nú, til að vinna gegn samdrætti í efnahagslífinu, að liðka fyrir nýjum útlánum til að örva fjárfestingu.
Þetta er meðal þess sem er til umfjöllunar í greiningu frá greiningardeild Arion banka.
Í greiningunni segir meðal annars að breytingar á regluverki, þar sem hertar eru kröfur um eigið fé hjá bönkum, leiði til þess að útlánageta verður skertari.
Í greiningunni er minnst á það að Seðlabankinn hafi nýverið breytt reglum um viðskipti sín við fjármálafyrirtæki og gert sértryggð skuldabréf, sem eru tryggð með húsnæðislánum einstaklinga í íslenskum krónum, hæf til tryggingar.
„Breytingin er tímabær, til þess fallin að lækka vaxtastig, örva útlán, milda efnahagssamdrátt og endurspeglar sýn Seðlabankans á kólnun hagkerfisins. Önnur nýleg ákvörðun, hækkun á eiginfjárkröfum bankanna, gengur hins vegar í aðra átt. Þessar ákvarðanir geta haft töluverð áhrif á fjármálamarkaði og þar með hagkerfið þó ekki fari mikið fyrir þeim í almennri umræðu þar sem nær öll áhersla er á stýrivexti Seðlabankans,“ segir í greiningunni.
Þá er því velt upp, hvort þessar kröfur um eiginfjárauka séu ranglega tímasettar, í ljósi gjörbreyttrar stöðu í hagkerfinu, eftir samdrátt í ferðaþjónustu við fall WOW air. „Ákvörðunin er skiljanleg í ljósi kröftugs útlánavaxtar um það leyti og fjórðungana á undan. Hins vegar drögum við í efa að fjármálasveiflan sé nú á þeim stað að hægja þurfi á uppsveiflu. Efnahagshorfur hafa snúist býsna hratt eins og t.d. vaxtalækkanir Seðlabankans bera með sér.“