Fyrirhugað er að smíða löggjöf til varnar hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds, og hefur frumvarp þess efnis nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Inntak frumvarpsins er meðal annars í samræmi við tilmæli GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, og starfshóps Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.
Fyrirhugaðar eru bæði viðbætur og breytingar á VI. kafla laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011, en sérstaklega snúa þær að nýjum reglum um varnir við hagsmunaárekstrum og skyldum atriðum.
Í umfjöllun um frumvarpið, í samráðsgáttinni, segir meðal annars að ráðamenn muni þurfa að skila nákvæmum upplýsingum um eignir og skuldir til forsætisráðuneytsins. „Fyrirhugað er að gera ráðherrum, aðstoðarmönnum ráðherra, ráðuneytisstjórum, skrifstofustjórum og sendiherrum skylt með lögum að skila til forsætisráðuneytisins skrá yfir nánar tilteknar eignir, skuldir og sjálfsskuldarábyrgðir þ.m.t. erlendis, þegar viðkomandi hefur störf hjá Stjórnarráðinu. Sömu upplýsingum þurfi að skila varðandi maka og ólögráða börn. Þá verður skylt að tilkynna um allar breytingar á framangreindu og tilkynna forsætisráðuneytinu jafnóðum um allar gjafir sem viðkomandi fær í tengslum við starf sitt og önnur hlunnindi og fríðindi, hvaða nafni sem þau nefnast,“ segir í umsögninni í samráðsgáttinni.
Þá verður gert skylt að skrá tengsl við alla skráða hagsmunaverði og aðra aðila sem sinna hagsmunagæslu. Loks verður skylt að skrá upplýsingar um hugsanleg samkomulög við vinnuveitanda um starf eftir að störfum fyrir hið opinbera lýkur.
„Hluti upplýsinganna verður birtur opinberlega á vef Stjórnarráðs Íslands, þ.e. allar upplýsingar varðandi ráðherra utan upplýsinga um maka og ólögráða börn þeirra og hluti upplýsinga um ráðuneytisstjóra og aðstoðarmenn ráðherra. Ekki er fyrirhugað að sinni að birta opinberlega upplýsingar um hagsmunaskráningu skrifstofustjóra og sendiherra og má gera ráð fyrir að óheimilt verði að afhenda þær almenningi á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012,“ segir í umsögninni.