Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur óskað eftir fundi hið fyrsta með dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar til að fara yfir mál barna sem endursenda á til Grikklands þar sem fjölskyldunum hefur verið veitt alþjóðleg vernd
Umboðsmaður óskar eftir því að á fundinum verði farið yfir forsendur þeirrar ákvörðunar að halda áfram endursendingum fjölskyldna sem hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi og þær upplýsingar sem ráðuneytið og Útlendingastofnun búa yfir um aðstæður barna og fjölskyldna sem hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi.
Þörf á að taka til skoðunar meðferð þessara mála
Í bréfi umboðsmanna barna, sem dagsett er 3. júlí 2019, til dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar segir að umboðsmaður barna óski einnig eftir því að ræða fyrirkomulag þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra hér á landi á meðan umsókn sé til meðferðar, meðferð umsókna og málsmeðferðartíma. Auk þess vill umboðsmaður ræða hvort að dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun telji þörf á að taka til skoðunar meðferð þessara mála með hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins ásamt öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði mannréttinda.
Jafnframt segir í bréfinu að á heimasíðu Útlendingastofnunar komi fram að endursendingum hælisleitenda til Grikklands hafi verið hætt árið 2010 þar sem aðstæður í gríska hæliskerfinu hafi verið taldar ófullnægjandi. Þá komi þar einnig fram að endursendingum þeirra sem fengið hafa alþjóðlega vernd í löndunum tveimur hafi ekki verið hætt þar sem þeir einstaklingar hafi fengið útgefin dvalarleyfi og fari því ekki í gengum hæliskerfið þar í landi.
„Með hliðsjón af því óskar umboðsmaður barna eftir því að á fundinum verði farið yfir forsendur þeirrar ákvörðunar að halda áfram endursendingum fjölskyldna sem hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi og þær upplýsingar sem ráðuneytið og Útlendingastofnun búa yfir um aðstæður barna og fjölskyldna sem hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi,“ segir að lokum í bréfinu