Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi íslenska sprotafyrirtækisins PayAnalytics, hlaut nýverið aðalverðlaun alþjóðlegs þings Heimssamtaka frumkvöðla- og uppfinningakvenna GWIIN, sem fram fór í London 27. – 28. júní.
Margrét kynnti á þinginu nýsköpunina að baki hugbúnaðarlausninni sem gerir fyrirtækjum kleift að framkvæma launagreiningar, skoða áhrif launaákvarðana og ráðast á launabil kynjanna með aðgerðaráætlun og kostnaðargreiningu.
Einnig hjálpar PayAnalytics til við að halda launabilinu lokuðu með launatillögum fyrir nýráðningar og þá sem færast til í starfi. Nýsköpunin að baki lausninni felst í stærðfræðialgrímum til að loka launabilum og í því að setja fram flókna tölfræði og stærðfræðilíkön á auðskiljanlegan og notendavænan hátt.
„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íslenskar konur hljóta viðurkenningu á ráðstefnunni, en Sandra Mjöll Jónsdóttir hlaut sömu verðlaun árið 2017. Þær sem deildu með sér 2. sætinu voru Dr. Rafiza ABD Razak frá Malasíu sem hefur unnið að rannsóknum á nýjungum í byggingarefnum, þá sérstaklega að búa til byggingarefni úr öskukenndum leir og Jenan Esam Saleh Alshehab frá Kúveit sem hefur unnið að þráðlausu rafmagni,“ segir í tilkynningu.
Í 3. sæti var svo Ervina Efzan ) frá Malasíu sem er að búa til gler úr banana trefjum (stem) og losna þar með við eiturefni eins og t.d. blý úr glerinu.
Fyrr á árinu vann PayAnalytics fyrstu verðlaun á Wharton People Analytics Conference, sem er keppni fyrir nýsköpunarfyrirtæki í Bandaríkjunum sem haldin er af hinum virta viðskiptaháskóla Wharton í Pennsylvaníu.