Yfirmaður Deutsche Bank í Japan tilkynnti öllum starfsmönnum bankans þar í landi, að líklega yrðu störf þeirra lögð niður á næstunni og starfsemi bankans breytt mikið. Þetta gerði hann innan við átta klukkustundum eftir að Christian Sewing, forstjóri bankans, hafði kynnt hagræðingaraðgerðir fyrir yfirmönnum helstu deilda og framkvæmdastjórum hjá bankanum.
Búist er við því að 18 þúsund manns verði sagt upp störfum á næstunni hjá bankanum en heildarstarfsmannafjöldi bankans er 91 þúsund. Hann er með höfuðstöðvar í Frankfurt í Þýskalandi.
Allar aðrar aðgerðir - eins og sameiningarviðræður við Commerzbank - hafa ekki skilað nægilega miklum árangri og er Sewing sagður hafa viljað grípa tafarlaust til aðgerða, enda taprekstur af mörgum deildum bankans.
Í dag hefur markaðsvirði bankans fallið um 5,4 prósent og er það nú 15,5 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 2 þúsund milljörðum króna. Á innan við 18 mánuðum hefur markaðsvirði bankans helmingast, og útlit er fyrir að erfiðleikar bankans séu ekki að baki.
Í bréfi til starfsmanna segir Sewing að næstu tvö árin muni fara í að framkvæma hagræðingaraðgerðirnar en yfirmenn einstakra deilda fá það verkefni að framkvæma þær. Búist er við að aðgerðaáætlunin verði komin til framkvæmda að fullu árið 2022.
Sewing segir í bréfi til starfsmanna að það hafi reynst Deutsche Bank dýrkeypt að reyna að keppa við aðra stóra fjárfestingabanka á Wall Street, á meðan kjarnastarfsemi bankans hafi verið hefðbundin viðskiptabankastarfsemi í Þýskalandi. Með þessum aðgerðum ætlar bankinn að hætta starfsemi sem fellur utan kjarnastarfsemi og einblína á að ná viðunandi arðsemi af kjarnastarfseminni.
Deutsche Bank hefur verið mikið í umræðunni, undanfarinn rúman áratug, vegna óábyrgra og ólögmætra fjármálagjörnina, en bankinn hefur ítrekað þurft að greiða sektargreiðslur vegna ólögmætra viðskiptahátta, meðal annars vegna markaðsmisnotkunar á markaði með vaxtaálög.