Fækkun hefur orðið í gistingu erlendra ferðamanna í gegnum vefsíður á borð við Airbnb en samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands hefur slíkum gistinóttum fækkað um 29 prósent milli ára. Engar sterkar vísbendingar eru hins vegar um að miklar flutningar hafi átt sér stað á íbúðum úr skammtímaleigu yfir á fasteigna- eða langtímaleigumarkaðinn það sem af er ári, samkvæmt nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.
Ekki mikil hreyfing á Airbnb
Í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs er skoðað hvort að framboð af litlum og meðalstórum íbúðum, en það eru algengnustu íbúðirnar á Airbnb, hafi minnkað og hvort að vísbendingar séu um að íbúðirnar séu farnar að leita inn á langtímaleigumarkaðinn eða fasteignamarkaðinn.
Samkvæmt skýrslunni hefur fjöldi eins til þriggja herbergja Airbnb-íbúða aukist töluvert á síðustu fjórum árum, þótt að hægt hafi á aukningu frá árinu 2017. Á fyrstu fimm mánuðum ársins var fjöldi eins til þriggja herbergja íbúða á skrá hjá Airbnb, nær óbreyttur frá sama tímabili í fyrra.
Ekki má því greina fækkun slíkra íbúða hjá Airbnb að undanförnu þrátt fyrir nokkra aukningu í fasteignaauglýsingum fyrir íbúðir af þessari gerð á sama tíma, samkvæmt skýrslunni. Þá var var ekki unnt að greina aukningu á langtímaleigu eins til þriggja herbergja íbúða í skýrslunni, en fjöldi þinglýstra leigusamninga slíkra íbúða hefur haldist tiltölulega stöðugur frá árinu 2017.
Því segir í skýrslunni að ekki séu sterkar vísbendingar um að miklir flutningar hafi átt sér stað á umræddum íbúðum úr skammtímaleigu yfir á fasteigna- eða leigumarkaðinn það sem af er ári. Hins vegar verði að hafa í huga að mögulegt sé að íbúðir haldist á skrá hjá Airbnb þrátt fyrir að vera á sama tíma auglýstar til langtímaleigu eða sölu.
Þriggja prósenta raunhækkun í veltu á höfuðborgarsvæðinu á milli ára
Tólf mánaða hækkunarþróunin í vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur á undanförnum árum sveiflast á milli tæplega 4 prósent og upp í nær 6 prósent, í kjölfar talsvert snarpra hækkana á árunum 2016 til 2017.
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3 prósent á milli apríl og maí, sem er nánast sami hækkunartaktur og í mánuðinum á undan. Árshækkun vísitölunnar mælist nú um 3,9 próesnt samanborið við 4,7 prósent árshækkun í apríl og 5,2 prósent í maí í fyrra.
Ef horft er til mánaðarlegrar veltu fasteigna- markaðarins á höfuðborgarsvæðinu mælist ríflega 6 prósent veltuaukning í krónum talið fyrstu fimm mánuði þessa árs frá sama tímabili árið áður, sem er tæplega 3 prósent raunaukning að teknu tilliti til verðbólgu og heildarfjöldi kaupsamninga verið nánast sá sami.
6 prósent aukning í fjölda seldra íbúða í sérbýli
Fyrstu fimm mánuði ársins mældist um 0,1 prósent fjöldaaukning kaupsamninga á milli ára. Þar af hefur verið 6 prósent aukning í fjölda seldra íbúða í sérbýli en 1,2 prósent samdráttur í sölu íbúða í fjölbýli. Veltuaukning yfir umrætt tímabil mælist 13,4 prósent miðað við fast verðlag á íbúðum í sérbýli en á sama tíma 0,6 prósentsamdráttur í veltu íbúða í fjölbýli.
Á sama tíma og aukning hefur orðið í fjölda seldra íbúða í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur meðalsölutími þeirra íbúða verið heldur að lengjast. Meðalsölutími þeirrar tegundar íbúða sem seldust frá janúar til maí voru 109 dagar samanborið við 96 daga yfir sama tímabil í fyrra. Samkvæmt skýrslunni benda þessar tölur til þess að framboð sérbýlisíbúða sem eru auglýstar til sölu hafi því aukist enn meira en hin aukna eftirspurn.
Meðalsölutími íbúða í fjölbýli hefur aftur á móti lengst minna á milli ára. Það sem af er ári hefur að meðaltali tekið 94 daga að selja fjölbýlisíbúð á höfuðborgarsvæðinu samanborið við 89 daga á fyrstu fimm mánuðum ársins 2018. Meðalsölutími íbúða alls á höfuðborgarsvæðinu mældist 101 dagur í maí samanborið við 87 daga í sama mánuði í fyrra.
8 prósent íbúða seldust á hærra verði en ásettu
Um 80 prósent allra íbúðaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu í maímánuði áttu sér stað undir ásettu verði og um 8 prósent seldust á hærra verði en ásettu ef miðað er við verð í nýjustu fasteignaauglýsingu áður en kaupsamningur var undirritaður. Til samanburðar var hlutfall íbúða sem seldust undir ásettu verði um 71 prósent í maí í fyrra og 11 prósent yfir.