Mismunandi er eftir atvinnugreinum hversu há laun eru. Heildarlaun í rekstri gististaða og veitingarekstri voru í 85 prósent tilvika undir 600 þúsund krónum á mánuði árið 2018. Hins vegar var um helmingur fullvinnandi launamanna í framleiðslu, heild- og smásöluverslun og fræðslustarfsemi með heildarlaun undir 600 þúsund krónum. Þá voru 40 prósent launamanna í heilbrigðis- og félagsþjónustu voru með heildarlaun undir 600 þúsund krónum, en tæplega 20 prósent með yfir milljón krónur á mánuði.
Heildarlaun allra fullvinnandi launamanna voru að meðaltali 721 þúsund krónur á mánuði, að því er kemur fram í tilkynningu Hagstofunnar um launarannsókn hennar. Launarannsóknin nær til 90 þúsund launamanna.
Heildarlaun ríkisstarfsmanna 818 þúsund krónur að meðaltali
Heildarlaun ríkisstarfsmanna árið 2018 voru 818 þúsund krónur að meðaltali en 593 þúsund krónur hjá starfsmönnum sveitarfélaga. 70 prósent starfsmanna sveitarfélaga voru með heildarlaun undir 650 þúsundum króna á mánuði en það sama átti við um 35 prósent ríkisstarfsmanna og tæplega 55 prósent starfsmanna á almennum vinnumarkaði, samkvæmt tilkynningunni.
5,5 prósent starfsmanna á almennum vinnumarkaði og ríkisstarfsmanna var með heildarlaun yfir 1.400 þúsund krónur á mánuði.
Grunnlaun í rekstri gististaða og veitingarekstri undir 400 þúsund krónum í 60 prósent tilvika
Heildarlaun í rekstri gististaða og veitingarekstri voru 504 þúsund krónur að meðaltali og miðgildi heildarlauna var 495 þúsund krónur. Í tilkynningu Hagstofunnar er bent á að dreifing heildarlauna innan atvinnugreinarinnar sé verulega frábrugðin dreifingu grunnlauna þar sem greiðslur vaktaálags séu algengar innan greinarinnar og einnig sé nokkuð um yfirvinnu.
60 prósent fullvinnandi starfsmanna í rekstri gististaða og veitingarekstri voru með grunnlaun undir 400 þúsund krónum á mánuði, hins vegar er hlutfallið 25 prósent sé litið til heildarlauna.
Í tilkynningu Hagstofunnar kemur fram að tæplega 85 prósent launamanna á gististöðum og í veitingarekstri voru með heildarlaun undir 600 þúsund krónum á mánuði. Hins vegar hafi um helmingur fullvinnandi launamanna í framleiðslu, heild- og smásöluverslun og fræðslustarfsemi verið með heildarlaun undir 600 þúsund krónum. Í heilbrigðis- og félagsþjónustu voru um 40 prósent með heildarlaun undir 600 þúsund krónum en tæplega 20 prósent með yfir milljón krónur á mánuði.
Sérfræðingar 65 prósent launamanna í fræðslustarfsemi
Launadreifingu á milli atvinnugreina má oftast rekja til ólíkra starfa og tilhögun vinnutíma, að því er kemur fram í tilkynningunni. Til dæmis séu fáir í störfum sérfræðinga í atvinnugreininni rekstur gististaða og veitingarekstur en um 6 prósent teljist til sérfræðinga í atvinnugreinum framleiðslu og heild- og smásöluverslunar.
Jafnframt teljast um 65 prósent launamanna sérfræðingar í fræðslustarfsemi og 42 prósent í heilbrigðis- og félagsþjónustu þar sem hjúkrunarfræðingar og læknar eru fjölmennastir. Hlutfall verkafólks var lægst í fræðslustarfsemi og í heilbrigðis- og félagsþjónustu en er hæst í framleiðslu og í rekstri gististaða og veitingareksturs.