Gengi bréfa í Icelandair hefur hríðfallið í dag, en þegar þetta er skrifað hefur markaðsvirði félagsins fallið um 4,31 prósent.
Samkvæmt tilkynningu félagsins er útlit fyrir að alþjóðleg kyrrsetning á Boeing 737 Max vélunum muni vara lengur en áður hafði verið reiknað með.
Áhrifin af kyrrsetningunni eru víðtæk, en ekki liggur þó fyrir enn hversu mikil þau verða fjárhagslega þegar upp verður staðið, þar sem ekki er ljóst hvort Boeing mun greiða flugfélögunum bætur sem hafa orðið fyrir tjóni vegna kyrrsetningarinnar.
Samkvæmt tilkynningu Icelandair í dag til kauphallar þá hefur félagið bætt fimm vélum við flota félagsins, en samningar vegna þeirra renna út í lok ágúst. Þá eru aðrar þrjár vélar í rekstri út september og vinnur félagið nú að því að útvega fleiri vélar eftir það.
Í tilkynningunni segir að sætaframboð dragist saman um fjögur prósent frá 16. september til 26. október, vegna þessa. Félagið vinnur nú að því að láta farþega vita sem verða fyrir áhrifum vegna kyrrsetningarinnar.
Ekki liggur fyrir hversu lengi alþjóðleg kyrrsetning á Max vélunum verður í gildi, en samkvæmt frásögnum erlendra fjölmiðla þá er jafnvel gert ráð fyrir að hún geti varað fram að áramótum. Kyrrsetningin tók gildi eftir að tvær Max vélar hröpuðu með stuttu millibili, 29. október og 13. mars, með þeim afleiðingum að 346 létu lífið, allir um borð í báðum vélunum.
Þrátt fyrir neikvæð áhrif af kyrrsetningunni á Max vélunum, þá hefur Icelandair aldrei flutt fleiri farþega til landsins en það sem af er sumri, eða 354 þúsund farþega í maí og júní.
Farþegafjöldinn var 257 þúsund á sama tímabili í fyrra. Bókanir á markaðnum til Íslands séu rúmlega 20 prósent fleiri á tímabilinu júlí til október miðað við sama tímabil í fyrra.
Markaðsvirði Icelandair er nú um 54 milljarðar króna.