Útflutningsverðmæti sjávarafurða var 239,8 milljarðar króna árið 2018 sem er 17,8 prósentum meira en árið áður. Í tonnum talið var einnig aukning þar sem flutt voru út rúmlega 670 þúsund tonn af sjávarafurðum sem er 61 þúsund tonni meira en árið áður. Þetta kemur fram í tilkynningu Hagstofunnar.
Af útflutningsverðmætinu voru 42,7 prósent frystar sjávarafurðir, mjöl og lýsi 27 prósent og ísaðar afurðir 13,8 prósent. Af einstökum tegundum var verðmæti ísaðra þorskafurða mest, það er 39,4 milljarðar króna. Frystur þorskur kemur þar á eftir að verðmæti 35,3 milljarðar króna.
Mest flutt út til Bretlands
Af þeim löndum sem mest útflutningsverðmæti fengust fyrir stendur Bretland hæst í 15,3 prósentum af heildarútflutningsverðmæti og kemur Frakkland þar á eftir í 11,3 prósentum. Spánn, Noregur og Bandaríkin koma þar á eftir með undir 10 prósentum hvert sem er svipað hlutfall og árið 2017, að því er segir í tilkynningunni.