Fjöldi erlendra ferðamanna um Leifsstöð nam tæplega 442 þúsund manns á öðrum ársfjórðungi borið saman við 547 þúsund á sama fjórðungi í fyrra. Ferðamönnum fækkaði því um 105 þúsund eða 19,2 prósent, að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans.
Á fyrsta ársfjórðungi nam fækkunin 4,7 prósentum, og því hefur samdrátturinn í komu ferðamanna aukist töluvert, eftir að WOW air féll í lok marsmánaðar.
Á fyrri árshelmingi fækkaði ferðamönnum um 12,4 prósent, en samkvæmt hagspá Hagstofu Íslands þá er gert ráð fyrir að samdrátturinn í komu ferðamanna til landsins geti orðið 17 prósent.
Hagspá Seðlabankans, sem gerir ráð fyrir 0,4 prósent samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári, gerir ráð fyrir að hækkun ferðamanna verði 10,5 prósent miðað við árið í fyrra.
Mesta hlutfallslega fækkunin á öðrum fjórðungi var hjá Írum, en þeim fækkaði um 43 prósent milli ára.
Ísraelsbúum fækkaði síðan um 41,7 prósent milli ára en þar á eftir komu Norður-Ameríkuríkin; Kanada og Bandaríkin.
Fækkunin hjá Kanadabúum var 33,2 prósent en hún var ívið meiri hjá Bandaríkjamönnum eða 34,5 prósent. „Fækkun Bandaríkjamanna og Kanadabúa í júní var í góðu samræmi við þá fækkun sem var í apríl og maí en fækkun þessara þjóða hefur verið töluvert meiri en t.d. þjóða Evrópu eftir brotthvarf Wow air. Þennan mismun má skýra með meiri hlutdeild Wow air í flug til og frá Bandaríkjunum en Evrópu,“ segir í hagsjá Landsbankans.
Mesta fjölgunin var hjá ferðamönnum frá Rússlandi, en þeim fjölgaði um 25 prósent á öðrum ársfjórðungi ársins og fjölgunin á ferðamönnum frá Kína var 11 prósent.