Úttekt verðlagseftirlits ASÍ sýnir að fasteignagjöld hafa í mörgum tilfellum hækkað mikið á síðustu sex árum í 15 stærstu sveitarfélögum landsins. Mestar eru hækkanir á fasteignasköttum, lóðaleigu og sorphirðugjöldum en miklar hækkanir má finna í öllum gjaldaflokkum. Þá hefur fasteignaskattur hækkað í 14 af 15 stærstu sveitarfélögunum landsins, þar af hefur fasteignaskattur hækkað mest í fjölbýli í Keflavík eða um 136 prósent.
Fasteignaskattur hækkað mikið samhliða hækkun fasteignaverðs
Fasteignagjöld eru árlega lögð á allar fasteignir og ber eigandi á hverjum tíma ábyrgð á greiðslu þeirra. Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðarleigu, sorphirðugjald og gjald vegna endurvinnslustöðva.
Í úttekt verðlagaeftirlits ASÍ er tekin sama þróun fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði í 15 stærstu sveitarfélögum landsins frá árunum 2013 til 2019. Í úttektinni kemur fram að fasteignaskattur, sem er reiknaður út frá fasteignamati, hafi hækkað mikið síðustu ár samhliða hækkun fasteignaverðs.
Hækkandi fasteignamat hefur þó einnig áhrif á önnur fasteignagjöld líkt og lóðaleigu, fráveitugjöld og vatnsgjöld. Fasteignamat ásamt álagningarhlutfalli sveitarfélaganna er í flestum tilfellum gjaldstofn fyrir innheimtu fasteignagjalda. Í úttektinni segir að einhver sveitarfélög hafi lækkað álagningarhlutföll á móti til að minnka áhrif af hækkandi fasteigna- og lóðamati en samkvæmt verðlagseftirlitinu hafa slíkar mótvægisaðgerðir ekki alltaf verið nægilega miklar til að draga úr hækkunum fasteignagjalda.
Mestar hækkanir í Reykjanesbæ en minnstar í Vestmannaeyjabæ
Á tímabilinu 2013 til 2019 lækkaði álagningarhlutfall hjá 10 af 15 sveitarfélögum, stóð í stað hjá þremur sveitarfélögum og hækkaði hjá tveimur sveitarfélögum. Þrátt fyrir það hefur innheimtur fasteignaskattur í flestum tilfellum hækkað mikið síðan árið 2014.
Þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á fasteignamati má sjá að innheimtur fasteignaskattur hækkaði hjá 14 af 15 sveitarfélögum á tímabilinu og nemur hækkunin frá 9,2 prósent í sérbýli í Vestmannaeyjum þar sem hún er minnst upp í 136 prósent í fjölbýli í Keflavík, Reykjanesbæ þar sem hún er mest.
Næst mest hækkar innheimtur fasteignaskattur í fjölbýli í Njarðvík, Reykjanesbæ, 131,2 prósent en þar á eftir kemur Reykjavíkurborg með 65,7 prósent hækkun í fjölbýli í Laugarneshverfi/Vogum og 65 prósent hækkanir í Seljahverfi.
Í sérbýli eru mestar hækkanir í Keflavík, Reykjanesbæ, 124 prósent og næst mestar í Njarðvík, Reykjanesbæ, 121,7 prósent. Þar á eftir kemur Fjarðarbyggð með 71,7 prósent hækkun. Minnstar hækkanir eru í sérbýli hjá Vestmannaeyjabæ, 9,2 prósent.
Miklar hækkanir á Seltjarnarnesi
Sorphirðugjöld eru hluti af fasteignagjöldum og er innheimt sem föst krónutala á hverja íbúð eða fjölda tunna við hús og hefur fasteigna- og lóðamat þar engin áhrif á. Í úttektinni má sjá að frá árinu 2014 hafa sorphirðugjöld áður hækkað hjá öllum sveitarfélögum og í mörgum tilfellum mikið. Mest hafa gjöldin hækkað hjá Seltjarnarnesbæ um 114 prósent og næst mest hjá Sveitarfélaginu Árborg um 84,5 prósent. Vestmannaeyjabær kemur þar á eftir með 75,4 prósent hækkun og Kópavogsbær með 75,2 prósent hækkun. Minnst hækkuðu sorphirðugjöldin hjá Reykjanesbæ, Akraneskaupstað og Ísafjarðarbæ.
Annað dæmi um mikla hækkun á Seltjarnarnesinu er hækkun á fráveitugjöldum í fjölbýli en á tímabilinu hækkuðu innheimt fráveitugjöld mest hjá Seltjarnarneskaupstað eða um alls 128 prósent. Þau hækkuð næst mest hjá Reykjanes bæ eða um 79 prósent.