Stjórn Icelandair Group hf. hefur skrifað undir kaupsamning við félagið Berjaya Property Ireland Limited, dótturfélag malasísku fyrirtækjasamstæðunnar Berjaya Land Berhad, um að félagið eignist meirihluta í Icelandair Hotels ásamt þeim fasteignum sem tilheyra rekstri hótela keðjunnar.
Frá þessu er greint í tilkynningu til kauphallar. Stofnandi og stjórnarformaður Berjaya er Tan Sri Dato Vincent Tan, kaupsýslumaður frá Malasíu, en hann er eigandi Cardiff City, sem landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunarsson lék með árum saman þar til í sumar.
Icelandair Hotels er með fjölbreytta gistimöguleika um land allt og heildarfjöldi herbergjaframboðs félagsins er 1.811. Að auki hyggst félagið, í samstarfi við Hilton Hotels, opna nýtt 145 herbergja glæsihótel á Landsímareit árið 2020
„Tekjur Icelandair Hotels námu 97 milljónum USD árið 2018 og heildarfjöldi starfmanna var 699. EBITDA hótelrekstrarins var 7 milljónir USD og leigutekjur fasteigna tengdum hótelrekstrinum námu 5 milljónum USD. Heildarflatarmál fasteignanna er 17.738 m2 og samanstanda af Hilton Canopy Reykjavík, Icelandair Hótel Akureyri, Icelandair Hótel Mývatni og Icelandair Hótel Héraði,“ segir í tilkynningunni.
Kaupsamningurinn gerir ráð fyrir að Berjaya eignist 75 prósent hlut, og að viðskiptin gangi í gegnum um áramótin. Viðskiptin gera ráð fyrir að Icelandair haldi eftir 25 prósent hlut í a.m.k. þrjú ár, en eftir það muni Berjaya eignist þann hlut.