Nova og Síminn hafa samið um dreifingu á enska boltanum í gegnum Nova TV appið á Apple TV. Einnig verður hægt að horfa á útsendingarnar í snjallsímum, spjaldtölvum og á nova.is.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nova. Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir í tilkynningu að heimilin í landinu séu að borga milljarða á ári fyrir leigu á myndlyklum, og það sé óþarfi. „Samkvæmt nýjustu tölum Póst- og fjarskiptastofnunar hafa þúsundir Íslendinga skilað inn myndlyklunum sínum að undanförnu. Við teljum að framtíð sjónvarps sé á netinu og það eina sem þú þurfir í dag til að horfa á sjónvarp sé öflug háhraða nettenging. Með Nova TV einföldum við aðgengi að sjónvarpsstöðvum og fólk getur hætt að greiða mánaðargjald af myndlyklum. Samkvæmt tölum Póst og fjarskiptastofnunar eru núna rétt um eitt hundrað þúsund myndlyklar í notkun hér á landi. Sé horft til þess hvað er verið að rukka fyrir leigu á myndlyklum þá eru Íslendingar að borga rúma tvo milljarða króna á ári í myndlyklagjöld. Það er algjör óþarfi og með þessari þjónustu þá viljum við brjóta upp fákeppnina sem hefur verið í aðferðum til að nálgast sjónvarpsefni. Við höfum talað fyrir því að fólk sé ekki eins og risaeðlur þegar kemur að tækninni. Nova TV er fyrir alla sem vilja ekki vera risaeðlur, vilja horfa á sjónvarpið í gegnum netið og spara sér pening í leiðinni,“ segir Margrét.
Nova TV appið verður aðgengilegt í Android TV á næstunni. Báðar íþróttastöðvar Símans verða aðgengilegar í Nova TV, en þriðju stöðinni verður bætt við þegar útsendingar verða frá leikjum í 4K-gæðum.
„Ekki er lengur tæknilega nauðsynlegt fyrir íslenska sjónvarpsáhorfendur að vera með myndlykil til að vera með áskrift að enska boltanum. Markmið Nova með dreifingunni er að auðvelda fólki að hætta alfarið notkun myndlykla. Fyrirtækið er hið eina, af stóru fjarskiptafyrirtækjunum hérlendis, sem ekki heldur úti myndlyklakerfi,“ segir í tilkynningu frá Nova.
Síminn er nýr rétthafi enska boltans, og verður með hann á dagskrá frá upphafi nýs keppnistímabils en Sýn hefur verið með hann undanfarin ár. Síminn selur íslenskum sjónvarpsáhorfendum áskrift að honum í gegnum eigin myndlykla og aðrar dreifileiðir en mun nú einnig bjóða upp á áskriftina í gegnum sjónvarpsapp Nova.
Nova TV appið er gjaldfrjálst og öllum aðgengilegt óháð áskrift. „Notendur appsins þurfa ekki á myndlykli
að halda og sleppa því til að mynda við að greiða leigugjöld sem fylgja myndlyklum,“ segir í tilkynningu frá Nova.