„Mikið hefur verið fjallað um mögulegar orsakir breytinga í stjórnmálum Vesturlanda. Ein skýringin er sú að hagur af alþjóðaviðskiptum og tækniframförum hafi dreifst ójafnt. Borgirnar þar sem ungt, vel menntað fólk býr, dafna á meðan sveitir og minni borgir missa unga fólkið og eldra, minna menntað fólk situr eftir og óttast áhrif innflytjenda og alþjóðaviðskipta. Þetta fólk vill vernda fjölskyldur sínar og nærumhverfi og kýs stjórmálaflokka sem kenna sig við þjóðernisstefnu.“
Þetta segir Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor, í ítarlegri grein sem kemur til áskrifenda næstkomandi föstudag, en í greininni fjallar hann um stöðu alþjóðaviðskipta og stjórnmála í heiminum þessi misserin.
Hann segir fjármálakreppuna fyrir rúmum áratug hafa haft mikil áhrif á stjórnmálin, og að viðhorf fólksins til stjórnmálaflokka hafi í grundvallaratriðum breyst. Það treysti síður hefðbundnum stjórnmálaflokkum, og ástæða sé til að óttast um afleiðingar aðgerða sem gripið hefur verið víða undanfarin misseri. „Þótt alþjóðaviðskipti, búferlaflutningar og tölvuvæðing kunni að ógna lífsafkomu ákveðinna hópa á Vesturlöndum þá er alls óvíst að þær efnahagslegu aðgerðir sem gripið hefur verið til af hinum nýju stjórnvöldum muni bæta hag þeirra. Tollastríð ríkisstjórnar Bandaríkjanna og útganga Breta úr Evrópusambandinu gætu allt eins haft þveröfug áhrif. Þannig er iðnaður í Norður Englandi háður aðgengi að innri markaði ESB og mikilvægar framleiðslueiningar eru í eigu Evrópskra aðila, t.d. í bílaiðnaði. En óánægja kjósenda með ástand mála bendir til þess að hefbundnum stjórnmálaflokkum hafi mistekist að láta fleiri njóta hagvaxtar og að jafna tækifæri. Þeir sem búa við skert tækifæri í lífinu og eyja ekki von um betri framtíð kunna ekki að meta ýmis konar pólitískan rétttrúnað hefðbundinna stjórnmála,“ segir Gylfi.
Þá segir að ráðist sé á þá með offorsi sem reyni að benda á blekkingar stjórnmálamann, sem nýti sér veikleika í lýðræðinu þessi misserin. „Óskammfeilnir stjórnmálamenn geta nýtt sér þessa veikleika lýðræðisins með því að koma sífellt fram með nýjar blekkingar, rangtúlkanir og ósannindi sem fáir hafa tíma til þess að setja sig inn í og hrekja. Og til þess að gera andmæli enn erfiðari geta þeir ráðist á eða látið ráðast á þá sem benda á blekkingar þeirra. Nýir samskiptamiðlar gera fórnarkostnað þess að koma fram með upplýsingar eða skoðanir meiri en áður.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér, en vitnað er til lítils hluta greinarinnar hér að ofan, sem kemur til áskrifenda næstkomandi föstudag.