Össur hefur samið um kaup á stoðtækjafyrirtækinu College Park Indrusties, sem er með höfuðstöðvar í Detroit í Bandaríkjunum. Starfsmenn fyrirtækisins eru 140 talsins en fyrirtækið velti 22 milljónum Bandaríkjadala í fyrra, eða sem nemur um 2,7 milljörðum króna.
Með kaupum hyggst Össur efla vörur College Park ennfrekar með alþjóðlegu sölu- og markaðsstarfi, en vörur fyrirtækisins hafa fengið góðar viðtökur og eru þekktar af gæðum og góðri tækni.
Markaðsvirði Össurar hefur aukist jafnt og þétt að undanförnu en við lokun markaða í gær, nam markaðsvirði félagsins 17,4 milljörðum danskra króna, eða sem nemur um 323,4 milljörðum króna.
Gengi bréfa félagsins hækkaði um 3,54 prósent í gær, og virtust fjárfestar taka fyrirhuguðum kaupum félagsins á College Park vel. Össur er með starfsemi í 25 löndum og eru starfsmenn nú um 3 þúsund, en höfuðstöðvarnar eru í Reykjavík.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir í tilkynningu að með kaupum á College Park þá verði hægt að koma betur til móts við þarfir viðskiptavina, og að lagt sé upp með að halda áfram vöruþróun með það að markmiði að koma sem best til móts við notendur.