Um 60 jarðir á Íslandi eru í eigu erlendra fjárfesta og viðskiptafélaga þeirra. Fjárfestarnir hafa eignast stór svæði lands í nokkrum landshlutum ásamt veiðiréttindum, að því er kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag. James Arthur Ratcliffe, sem keypt hefur fjölda jarða á Austurlandi, hefur keypt tugi jarða og eru kaupin gerð í gegnum fjölmörg félög. Eignir hans eru metnar á 1.500 milljarða króna.
Samkvæmt heimildum blaðsins er félagið Dylan Holding S.A. í eigu Ratcliffe. Félagið er móðurfélag 20 annarra félaga sem skráð eru eigendur jarða á Íslandi. Eignarhluturinn er breytilegur en oft er um 100 prósenta hlut að ræða í jörðunum.
Ný löggjöf um jarðakaup tilbúin í haust
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagðist í vikunni binda vonir við að frumvarp um jarðakaup útlendinga hér á landi verði tilbúið snemma í haust. Hann vill jafnframt ganga eins langt og hægt er með löggjöfinni.
Sigurður Ingi sagði þróun jarðarkaupa síðustu ára vera alveg óviðunandi. „Þess vegna hafa stjórnvöld verið með það til skoðunar hvaða leiðir séu færar til að hafa þetta umhverfi með eðlilegri hætti og líkara því sem við þekkjum bæði í Noregi og Danmörku,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið, spurður um jarðakaup erlendra aðila, þar á meðal Atlastaði.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í viðtali í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í vikunni að breiður pólitískur vilji væri til að takmarka jarðakaup auðmanna hér á landi. Það sé skýrt að ekki eigi að líta á land eins og hverja aðra vöru eða þjónustu.