Eigið fé Síldarvinnslunnar á Neskaupstað nam í lok árs í fyrra 334 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 42 milljörðum króna, en hagnaður ársins var 33 milljónir Bandaríkjadala, eða 4,1 milljarður, samkvæmt uppgjöri félagsins fyrir árið í fyrra en fjallað var um það í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.
Staða Síldarvinnslunnar hefur styrkst verulega á undanförnum árum, og reksturinn gengið vel.
Rekstrartekjur félagsins námu 200,9 milljónum Bandaríkjdala í fyrra, eða um 25,3 milljörðum króna. Árið á undan voru þær 174 milljónir Bandaríkjadala.
Heildareignir félagsins námu í lok árs í fyrra 511 milljónum Bandaríkjdala, eða sem nemur um 64 milljörðum króna, og jukust þær um 3,5 prósent frá því árið á unda.
Samherji er stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar með tæplega 45 prósent hlut, Kjálkanes ehf. næst stærst með rúm 34 prósent, Samvinnufélag útgerðarmanna á Neskaupstað þriðji stærsti eigandinn með tæplega 11 prósent og loks er Eignarhaldsfélagið Snæfugl ehf. fjórði stærsti eigandinn með um 5,3 prósent.