Tryggingamiðstöðin hefur gert kauptilboð í alla eignarhluti Klakka ehf. í Lykli. Tilboðið miðast við að 9,25 milljarða króna verði greiddir fyrir Lykil í reiðufé auk hagnaðar Lykils á þessu ári eftir skatta. TM átti í viðræðum um kaup á Lykli í júní í fyrra en félögin náðu ekki saman og fallið var frá viðræðunum.
Hagnaður Lykils 1,2 milljarðar í fyrra
Klakki ehf. er eignarhaldsfélag í eigu innlendra og erlendra fjárfesta en félagið fór í gegnum nauðasamninga árið 2010. Lykill fjármögnun hf. er nú langstærsta eign Klakka en flestar aðrar eignir félagsins, s.s. hlutir í tryggingafélaginu VÍS og fjarskiptafyrirtækinu Skipti/Símanum, hafa verið seldar á síðustu árum.
Lykill fjármögnun er fjármálafyrirtæki sem býður upp á margþættar fjármögnunarleiðir við kaup og rekstur fasteigna og lausafjármuna fyrir einstaklinga, fyrirtæki og aðra rekstraraðila. Í fyrra nam hagnaður Lykils 1,2 milljörðum króna og 2,1 milljarði króna árið 2017.
Viðskiptin eru þó háð ýmsum fyrirvörum, áreiðanleikakönnun og niðurstöðu hennar, samþykki hluthafafundar TM og samþykki Fjármálaeftirlitsins um að TM megi fara með virkan eignarhlut í Lykli fjármögnun og að Samkeppniseftirlitið samþykki hið nýja eignarhald. Gert er ráð fyrir að viðræður taki um tvo mánuði.