Hundruð þúsunda mótmælenda flykktust á götur Púertó Ríkó í gær og lokuðu fyrir hraðbrautir og samgöngur í höfuðborginni. Mótmælendurnir krefjast afsagnar ríkisstjóra Púertó Ríkó, Ricardo A. Rosselló. Mótmælin eru með þeim stærstu í sögu eyjunnar, að því er kemur fram í frétt The New York Times.
Mótmælin hófust fyrr í mánuðinum þegar blaðamenn komust yfir um 900 blaðsíður af afritum af símskeytum Rosselló og vina hans. Skeytin voru afar bíræfin, full kvenfyrirlitningar og fordóma gagnvart samkynhneigðum.
Vilja afsögn Rosselló tafarlaust
Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda í gær. Lögregla skaut til að mynda táragasi og gúmmíkúlum á mótmælendur sem mótmæltu fyrir framan heimili Rosselló.
Tveir flokkar hafa lengi verið við völd í Púertó Ríkó. Annar þeirra er flokkur Rosselló sem kallast Nýi framfaraflokkurinn. Rosselló sagði síðastliðinn sunnudag að hann myndi bráðlega láta af völdum og að hann muni ekki fara í framboð árið 2020. Mótmælendurnir vilja þó að hann segi tafarlaust af sér.
Íbúar langþreyttir á stöðu sinni gagnvart Bandaríkjunum
Í Púertó Ríkó búa 3.2 milljónir manna og er ekki fylki í Bandaríkjunum en er ríkissvæði þess (US territory). Það þýðir að íbúar þess geta ekki kosið sér frambjóðendur á bandarískt þing eða í forsætiskosningum en eyjan telst engu að síður ekki sem sjálfstætt ríki.
Árið 2012 kusu íbúar eyjunnar um stöðu sína sem ríkissvæði og vildu 54 prósent kjósenda hætta að vera ríkissvæði. Engu að síður varð engin breyting á stöðu Púertó Ríkó í kjölfarið þar sem áætlun um næstu skref skorti.
Náttúruhamfarir árið 2017 skilja enn eftir sig spor
Fellibylurinn María fór yfir eyjuna árið 2017 og skildi eftir sig mikla eyðileggingu. Í kjölfarið fluttu þúsundir af brott ásamt því að atvinnuleysi hækkaði til muna og var eyjan var nærri gjaldþroti. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, var harðlega gagnrýndur fyrir framkomu sína gagnvart eyjunni og var hann sakaður um skeytingarleysi gagnvart íbúum hennar.
Trump hefur sagt Rosselló og stjórn hans vera „algjörlega vanhæfa“ og spillta. Hann hefur jafnframt sagst hafa mikinn skilning á aðstæðum á eyjunni og að hann sjálfur sé það besta sem gerst hafi fyrir Púertó Ríkó.