Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,2 prósent milli maí og júní samkvæmt tölum Þjóðskrár. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,3 prósent og verð á sérbýli lækkaði um 0,5 prósent.
Þegar horft er yfir 12 mánaða tímabil þá hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,4 prósent og verð á sérbýli um 1,8 prósent. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 3,4 prósent, sem er 0,4 prósentustiga lækkun frá fyrri mánuði.
Samkvæmt Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans er fasteignamarkaður í algerri kyrrstöðu og telur hún þessar tölur vera enn ein birtingarmynd á því að fasteignamarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sé í mikilli kyrrstöðu.
Viðskipti með fjölbýli skipta langmestu máli við mælingar á þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt Hagfræðideild Landbankans. Þannig voru viðskipti með fjölbýli um 82 prósent allra viðskipta með íbúðarhúsnæði á árinu 2018. Á síðustu sex mánuðum hefur verð á fjölbýli hækkað um 1 prósent og skiptir 1 prósent verðlækkun í febrúar miklu í því sambandi. Samsvarandi tala fyrir árið 2018 var 1,9 prósent og 11,9 prósent fyrir árið 2017.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,37 prósent milli mánaða í júni og 3 prósent á einu ári, eða nokkuð minna en fasteignaverð á sömu 12 mánuðum. Hagfræðideild Landsbankans bendir á að raunverð fasteigna hafi því breyst lítið milli mánaða, nema hvað raunverð sérbýlis hefur gefið nokkuð eftir. Horft yfir lengra tímabil hefur hófleg hækkun fasteignaverðs síðustu mánuði náð að halda nokkurn veginn í við þróun verðbólgunnar án húsnæðiskostnaðar. Því hefur raunverð íbúðarhúsnæðis verið nokkuð stöðugt. Raunverð fór hæst í október 2007 fyrir hrun en lækkaði svo mikið. Það náði aftur sama stigi í apríl 2017 og hefur síðan hækkað um tæp 10 prósent.
Árshækkun raunverðs er orðin hóflegri en áður. Þannig var raunverð fasteigna nú í júní um 0,2 prósent hærra en í júní 2018. Hækkun raunverðs síðustu 12 mánuði er mun minni en árin tvö þar á undan. Samsvarandi tölur voru 4,1 prósent fyrir júní 2018 og 25 prósent fyrir júní 2017.
Viðskipti með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í júní voru mun minni en verið hefur lengi að undanskildum desember á síðasta ári. Fjöldi viðskipta fyrstu sex mánuði ársins 2019 var um 4 prósent minni og á sama tíma fyrir ári og viðskiptin í júní í ár voru um 23 prósent minni en í júní 2018. Það má því segja að fasteignamarkaðurinn hafi gefið töluvert eftir hvað fjölda viðskipta varðar, samkvæmt Hagfræðideildinni.