Stjórn Miklatorgs leggur til við hlutahafafund að félagið greiði hluthöfum sínum 500 milljónir króna í arð vegna síðasta rekstrarárs sem stóð frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2018. Er það samsvarandi arðgreiðsla og samþykkt var í fyrra. Nú nemur arðgreiðslan nær öllum hagnaði rekstrarársins sem nam 528 milljónum króna. Frá þessu greinir ViðskiptaMogginn í dag.
Hagnaðurinn var mun meiri á fyrra rekstarári en þá nam hann 982,5 milljónum króna en árið þar á undan var hann 758,9 milljónir.
Miklatorg hf. er í eigu Eignarhaldsfélagsins Hofs ehf. Það félag er í jafnri eigu Fara ehf. og Dexter Fjárfestingar ehf. Fari ehf. er í eigu Jóns Pálmasonar og Dexter Fjárfestingar ehf. er í eigu Sigurðar Gísla Pálmasonar, bróður hans.
Í frétt ViðskiptaMoggans kemur fram að rekstrartekjur Miklatorgs hafi á síðasta ári numið 11,4 milljörðum króna og aukist um ríflega 1,1 milljarð króna. Rekstrargjöld hækkuðu að sama skapi og námu 10,7 milljörðum, samanborið við 9,1 milljarð króna á fyrra rekstrarári. Miklatorg greiddi 337,3 milljónir til IKEA á liðnu ári og hækkuðu gjöldin um 30 milljónir milli ára.
Kostnaðarverð seldra vara nam 6,3 milljörðum og hækkaði um rúma 1,2 milljarða milli ára. Laun og launatengd gjöld jukust um 3,8 prósent og námu 2,5 milljörðum. Á sama tíma fjölgaði stöðugildum um 24 og voru þau 341 í lok tímabilsins. Jafngildir það 7,6 prósent fjölgun milli ára. Eignir Miklatorgs í lok ágúst síðastliðins námu 2,6 milljörðum króna og jukust um 407 milljónir milli ára. Skuldir jukust einnig talsvert og námu rúmum tveimur milljörðum í lok tímabilsins, samanborið við ríflega 1,6 milljarða tólf mánuðum fyrr. Eiginfjárhlutfall félagsins er 21,8 prósent, samkvæmt ViðskiptaMogganum.
Þórarinn Ævarsson sagði upp störfum sem framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi fyrr á árinu og tók sæti í stjórn fyrirtækisins. Í byrjun maí síðastliðins var Stefán Rúnar Dagsson ráðinn framkvæmdastjóri í hans stað.