Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur staðfest óbreytta lánshæfiseinkunn hjá þremur stærstu bönkum landsins: Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum. Aftur á móti hefur fyrirtækið breytt horfum úr stöðugum í neikvæðar. Þetta kemur fram í nýrri umsögn S&P.
Bankarnir þrír eru allir með langtímaeinkunnina BBB+ og skammtímaeinkunnina A-2. Í umsögninni segir að afkomuspá bankanna hafi versnað þar sem mikil samkeppni ríki á bankamarkaði og sterkt efnahagsumhverfi styðji ekki lengur við þá. Þeir eru sagðir hafa bætt fyrir lítinn hagnað af reglulegri bankastarfsemi með hagnaði annars staðar frá á síðustu árum en að það eigi ekki lengur við.
S&P miðar við að samdráttur verði í íslensku efnahagslífi á þessu ári en að það muni vaxa á ný á næsta ári.
Verði breyting til batnaðar breytast horfur aftur
Á vef Landsbankans má finna umfjöllun um matið en þar er dregið fram að í tilkynningu S&P segi meðal annars að breyttar horfur taki tillit til áskorana í efnahagsumhverfi íslenskra banka og sé bent á að búast megi við efnahagssamdrætti árið 2019, lækkandi vöxtum, áframhaldandi hárri skattbyrði og harðri samkeppni frá lífeyrissjóðum. S&P telji líklegt að ofangreindir þættir muni hafa neikvæð áhrif á arðsemi bankans. S&P taki jafnframt fram að aftur megi búast við hagvexti á árinu 2020. Verði breyting til batnaðar á rekstrarumhverfi bankanna geti S&P breytt horfum aftur í stöðugar.
Þá sé tekið fram að íslensku bankarnir hafi náð góðum árangri á sviði stafrænnar þróunar og upplýsingatækni og séu betur undir það búnir að mæta samkeppni sem byggir á nýrri tækni en margir aðrir evrópskir bankar. Þá sé markaðshlutdeild þeirra traust og fjármögnun þeirra og lausafjárstaða sambærileg við erlenda banka.
„Nauðsynlegt að allir keppinautar sitji við sama borð“
Í tilkynningu Arion banka til Kauphallarinnar kemur fram að erfitt sé fyrir íslenska banka að auka hagnað og umfang viðskipta frá því sem nú er þar sem samkeppni sé afar hörð og dregið hafi úr hagvexti. Þátttaka lífeyrissjóða á lánamarkaði skekki jafnframt samkeppnisumhverfi íslenskra banka, bæði hvað varðar lánskjör og lánavöxt. Þar af leiðandi séu horfur metnar neikvæðar.
Íslandsbanki vill ítreka í tilkynningu til Kauphallar að það sé ábyrgðarhlutur hins opinbera að gæta þess að skattar og gjöld á íslenska viðskiptabanka séu ekki of íþyngjandi og veiki ekki samkeppnisstöðu þeirra. Slíkt sé bagalegt í umhverfi þar sem lífeyrissjóðir og fjártæknifyrirtæki hafi bæst í hóp keppinauta án þess að greiða samsvarandi gjöld til ríkisins og viðskiptabankar greiða. „Samkeppni er af hinu góða en þá er nauðsynlegt að allir keppinautar sitji við sama borð,“ segir í tilkynningu bankans.