Afkoma Landsbankans var jákvæð um 11,1 milljarð króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2019 samanborið við 11,6 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 9,1 prósent á ársgrundvelli, samanborið við 9,9 prósent á sama tímabili 2018. Laun og launatengd gjöld lækkuðu um 2 prósent á milli tímabila.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.
Hreinar vaxtatekjur voru 20,5 milljarðar króna og hækkuðu um 5 prósent á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 4,1 milljarði króna samanborið við 3,9 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Virðisrýrnun útlána nam 2,4 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 1,7 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Vanskilahlutfall var 0,9 prósent á fyrri helmingi ársins 2019 samanborið við 0,6 prósent á sama tímabili 2018.
Rekstrartekjur bankans á fyrri helmingi ársins námu 27,9 milljörðum króna samanborið við 29,0 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 5,7 milljörðum króna samanborið við 3,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður.
Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,4 prósent á fyrri helmingi ársins 2019 en var 2,7 prósent á sama tímabili í fyrra.
Rekstrarkostnaður stendur í stað
Rekstrarkostnaður bankans nam 12,2 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins 2019 og stendur hann í stað á milli tímabila. Þar af var launakostnaður 7,4 milljarðar króna samanborið við 7,5 milljarða króna á sama tímabili árið 2018. Annar rekstrarkostnaður var 4,9 milljarðar króna samanborið við 4,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður.
Kostnaðarhlutfall á fyrri helmingi ársins 2019 var 40,4 prósent, samanborið við 44,5 prósent á sama tímabili árið 2018.
Útlán jukust um 6,2 prósent frá áramótum, eða um 66 milljarða króna, bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Innlán hjá Landsbankanum jukust um tæplega 5 milljarða frá áramótum.
Eigið fé Landsbankans var 240,6 milljarðar króna þann 30. júní síðastliðinn og eiginfjárhlutfallið var 23,7 prósent.