Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra hefur lagt fram tillögur að aðgerðum til þess að styrkja húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni og koma til móts við áskoranir sem fjölmörg sveitarfélög standa frammi fyrir í húsnæðismálum.
Meðal þessara aðgerða er að rýmka heimildir um viðbótarframlag sem heimilt er að veita vegna íbúða á svæðum þar sem bygging hefur verið í lágmarki og skortur er á leiguhúsnæði, veita styrki til uppbyggingar á köldum markaðssvæðum, liðka á kröfum innan stjórnsýslunnar til þess að lækka byggingarkostnað og að auka samstarf hagsmunaaðila, sveitarfélaga og Íbúðarlánasjóða.
Tillögurnar eru í samráðsgátt stjórnvalda en hægt er að gera athugasemdir við verkefnið til 12. ágúst næstkomandi.
Samkvæmt Íbúðarlánasjóði er stöðnun algengt vandamál í þessum sveitarfélögum og víða hefur ekkert íbúðarhúsnæði verið byggt í einn til tvo áratugi. Mun meira var byggt á landsbyggðinni frá aldamótum og fram að hruni, heldur en síðustu ár. Sérfræðingar Íbúðalánasjóðs sjá merki um markaðsbrest á mörgum svæðum enda ráðist fáir í að reisa nýtt íbúðarhúsnæði þrátt fyrir að atvinna sé víðast hvar næg og eftirspurn eftir íbúðum mikil. Þeir fáu sem vilja byggja í smærri sveitarfélögum komi oft og tíðum að lokuðum dyrum á lánamarkaðnum. Dýr og erfið fjármögnun, skortur á byggingaraðilum og misvægi milli húsnæðisverðs og byggingarkostnaðar hafi valdið því að lítið eða ekkert er byggt.
Tillögurnar byggja meðal annars á tilraunaverkefni Íbúðalánasjóðs með sjö sveitarfélögum og er ætlað að bregðast við ofangreindum áskorunum landbyggðarinnar.
Ráðherra boðaði einnig að hann myndi setja í reglugerð nýjan lánaflokk hjá Íbúðalánasjóði til að auðvelda sjóðnum að veita fjármögnun á landsbyggðinni. „Hann leggur áherslu á að tryggja þurfi íbúum landsbyggðarinnar aðgengi að fjármagni á sambærilegum kjörum og fást á virkari markaðssvæðum. Þá vill hann bregðast við skorti á hagkvæmu leiguhúsnæði með því að gera sveitarfélögum á landsbyggðinni kleift að byggja íbúðir í almenna leigukerfinu með stofnframlagi ríkisins. Heimilt verði að veita sérstakt byggðaframlag vegna leiguíbúða á svæðum þar sem misvægi ríkir á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs og þá verði heimildir sveitarfélaga til þess að leggja fram stofnframlög rýmkaðar. Tillögurnar taka mið af ólíkum áskorunum sveitarfélaga víðs vegar um land,“ segir í frétt Íbúðarlánasjóðs um málið.