„Fyrir rétt verð geta stórnotendur leyst úr hér um bil hvaða skorti sem er á almennum rafmagnsmarkaði á Íslandi með því að láta af hendi brot af rafmagninu sem þeir nota. Kaup stórnotenda á rafmagni, rúmir 4/5 markaðsins, ógna því ekki almennum markaði, heldur mynda þau eins konar öryggisnet fyrir hann. Lítil sem engin hætta er á rafmagnsskorti á almennum markaði hér á landi, að því gefnu að menn séu reiðubúnir til þess að borga meira fyrir rafmagnið – og það vilja flestir miklu fremur en að fá ekkert rafmagn. Vandinn virðist helst liggja í því að íslenskir stjórnmálamenn vilja ekki láta rafmagnsverð á almennum markaði taka fullt mið af framboði og eftirspurn.“
Þetta segir Sigurður Jóhannesson, doktor í alþjóðaviðskiptum í ítarlegri grein sem kemur til áskrifenda Vísbendingar í dag, en í greininni fjallar hann um mögulegan skort á rafmagni hér á landi og hvernig hægt sé að afstýra skorti með því hækka rafmagnsverð á almennum markaði.
Í greininni fjallar hann um nýja spá Landsnets sem unnin var af verkfræðistofunni Eflu en þar kemur fram að heildarþörf fyrir rafmagn hér á landi verði komin fram úr framleiðslunni eftir fjögur ár, ef svo fer sem horfir.
Sigurður bendir hins vegar á að þegar rætt er um að rafmagn kunni að vanta á Íslandi eftir nokkur ár þá virðist ekki vera gert ráð fyrir því að verð á rafmagni bregðist við breytingum á framboði og eftirspurn.
„En þegar rætt er um að rafmagn kunni að vanta á Íslandi eftir nokkur ár virðist ekki vera gert ráð fyrir að verð á þessari vöru bregðist við breytingum í framboði og eftirspurn. Með öðrum orðum er ekki reiknað með að rafmagnsverð á almennum markaði breytist að neinu ráði, hvað annað sem gerist. Sagt er að íslenskir stjórnmálamenn leggist gegn öllum verðhækkunum á almennum markaði með rafmagn. Stjórnmálamenn hafa nefnilega enn mikil ítök á íslenskum rafmagnsmarkaði, þó að hann eigi að heita frjáls, því að ríki og sveitarfélög eiga flest fyrirtæki sem selja rafmagn hér á landi. Meiningin með því að halda rafmagnsverði niðri er góð: Enginn vill borga meira fyrir rafmagnið en hann gerir nú. Það sama á reyndar við um flestar aðrar vörur. En sennilega veldur fast verð miklu meiri skaða en verðsveiflur,“ segir Sigurður.
Aftur á móti segir Sigurður að nýleg athugun sýni að almenningur þoli töluverðar verðhækkun án þess að það dragi úr notkuninni að nokkru ráði. Breskar rannsóknir sýni að mun dýrara sé fyrir almenning ef verulegur skortur verði á rafmagni fremur en verðhækkun.
„En þegar rafmagnið fer alveg er tekið fyrir alla notkun – jafnt þá sem er nánast óþörf og notkun sem neytendur mundu borga margfalt markaðsverð fyrir. Þess vegna er verðhækkun nánast alltaf miklu hagkvæmari en rafmagnsleysi eða skömmtun. Hærra verð stuðlar líka að lausn vandans. Fólk fer að spara rafmagnið. Það kaupir sparperur og slekkur ljósin þegar það fer út úr herbergi. Eftir að verð hækkar er líka meira upp úr því að hafa að búa til rafmagn. Framboð eykst.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér, en vitnað er til lítils hluta greinarinnar hér að ofan, sem kemur til áskrifenda á föstudögum.