Kaupum Michele Ballarin og félags hennar, Oasis Aviation Group, á flugrekstrartengdum eignum úr þrotabúi WOW air hefur verið rift. Frá þessi greinir Morgunblaðið í morgun.
Samkvæmt blaðinu mun ástæðan vera sú að síendurtekið hafi dregist að borga fyrstu greiðslu samkvæmt kaupsamningi sem gerður var milli þrotabúsins og kaupenda.
Fram kom í Fréttablaðinu fyrr í mánuðinum að gengið hefði verið frá sölu allra eigna þrotabús WOW air sem tengjast flugrekstri. Nafn kaupandans var ekki gefið upp gefið en talað var um fjársterka bandaríska aðila með mikla reynslu í flugrekstri og áratugalanga starfsemi í Bandaríkjunum, Evrópu og víðar. Síðar kom í ljós að um Michele Ballarin væri að ræða.
Viðskiptin í þremur áföngum
Samningurinn gerði aftur á móti ráð fyrir að viðskiptin yrðu gerð í þremur áföngum og að umfang þeirra allra yrði svipað að umfangi. Samkvæmt Morgunblaðsins hljóðaði heildarvirði viðskiptanna upp á tæpar 1,5 milljónir dollara, eða ríflega 180 milljónir króna.
Þrátt fyrir riftunina hafa þreifingar um að koma viðskiptunum að nýju á átt sér stað en þau eru í uppnámi sem stendur, samkvæmt blaðinu.
Gerði ekki fyrirvara um kaupin
Athygli vekur að Ballarin setti engan fyrirvara um kaupin í viðtalið sem birtist í ViðskiptaMogganum miðvikudaginn síðastliðinn. Þar fullyrti hún að nú þegar væri búið að tryggja milljarða króna til rekstursins fyrstu tvö árin.
„Við höfum tryggt félaginu 85 milljónir Bandaríkjadala, eða 10,5 milljarða króna, sem á að duga félaginu fyrstu 24 mánuðina. Ef þörf verður á getur sú tala orðið allt að 100 milljónir dala, eða 12,5 milljarðar króna,“ sagði Ballarin í viðtalinu. Umfang umræddra kaupa, sem nú hefur verið rift, voru því aðeins um 1,8 prósent af þeirri fjárhæð sem Ballarin fullyrti að nú þegar væri búið að tryggja til rekstursins.
Kannist ekki við komu WOW
Samkvæmt Túrista.is sagðist fjölmiðlafulltrúi Dulles-flugvellinum í Bandaríkjunum ekki kannast við komu WOW air til borgarinnar en Ballarin hefði meðal annars sagt í fyrrnefndu viðtali að yfirvöld á flugvellinum væru spennt fyrir að hýsa heimahöfn flugfélagsins.
„Í Mogganum segir Ballarin frá fundum sínum með flugmálayfirvöldum í bandarísku höfuðborginni og segir þau „ótrúlega spennt” fyrir komu WOW air. Þessi lýsing er þó ekki í takt við þau svör sem Túristi hefur fengið frá fjölmiðlafulltrúum Dulles. Þar segir að flugmálayfirvöld Washington svæðisins þekki ekki til US Aerospace Associates eða félaga sem tengjast frú Ballarin. Í svarinu segir jafnframt að forsvarsfólk flugfélaga hafi reglulega samband við yfirvöld og lýsi yfir áhuga á að hefja flug til borgarinnar. Á þessari stundu liggi hins vegar ekkert fyrir um komu nýrra flugfélaga eða nýrra flugleiða til og frá Washington Dulles,“ segir í frétt Turista.is.