Styrkleiki Íslands felst í sveigjanleika hagkerfis landsins, samkeppnishæfni og hagkvæmri lýðfræði. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu í tengslum við lánshæfi ríkissjóðs alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody´s Investors Service sem birt var í dag. Þessir þættir styða horfur fyrir langtímavöxt hagkerfisins og hjálpa til við að takast á við áföll vegna smæðar og samþjöppunar atvinnulífsins, samkvæmt Moody´s.
Álit fyrirtæksins felur ekki í sér endurskoðun á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs, sem er áfram A3 með jákvæðum horfum.
„Árangur landsins í þjóðhagsstjórnun með því að endurheimta fjárhagslegan stöðugleika og styrkja reglugerðir eftir bankakreppuna hefur aukið styrk stofnana,“ segir í skýrslunni. Ennfremur telur Moody´s að losun fjármagnshafta hafi verið náð með lágmarksröskun.
Moody´s bendir á að helsti veikleiki Íslendinga sé smæð hagkerfisins, ásamt litlu myntsvæði – sem geri það berskjaldað fyrir sveiflum.
Þá kemur fram hjá Moody´s að það sem trufli vaxtahorfur verulega sé möguleikinn á áfalli í einni af þremur helstu aðalatvinnugreinunum. Þá er vísað til falls Wow air fyrr á árinu sem olli tímabundnum samdrætti árið 2019. En þrátt fyrir það reiknar Moody´s með því að hagvöxtur verði um 2,5 prósent árið 2020.