Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir í andmælunum sem bárust til forsætisnefndar Alþingis vegna svokallaðs Klausturmáls galið að vera útmálaður í hlutverki geranda vegna ummæla hans um Albertínu Elíasdóttur, þingkonu Samfylkingarinnar. Viljinn greinir frá í kvöld.
Samkvæmt Viljanum segir Bergþór stöðuna vera þveröfuga og að það sé ástæðan fyrir því að hann hafi hvorki dregið til baka orð sín um hana sem féllu á Klausturbar, né beðist afsökunar á þeim.
Forsætisnefnd hefur þegar komist að niðurstöðu um afstöðu sína í málinu, sem byggir á niðurstöðu siðanefndar og athugasemdum frá hlutaðeigandi, en niðurstaðan verður ekki kynnt fyrr en í fyrsta lagi á morgun, fimmtudag.
„Við eigum sem sagt MeToo-sögu“
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, og Bergþór sögðu báðir á Klausturbar að Albertína hefði gengið á þá með kynlíf. Bergþór lýsti því að í hans tilviki hefði það gerst á herrakvöldi íþróttafélagsins Vestra en Gunnar Bragi sagði sinn atburð hafa átt sér stað í samkomuhúsinu í Hnífsdal.
„Við eigum sem sagt MeToo sögu,“ sagði Bergþór á einum tímapunkti í samtalinu.
„Léstu þig hafa það?“ spurði einhver í kjölfarið.
„Nei, ég gerði það sem betur fer ekki,“ sagði Bergþór.
„Það voru ýmsir sem sögðu „take one for the team“ en Beggi var ekki til,“ sagði Sigmundur Davíð og uppskar hlátur.
„Ég var orðinn þreyttur á herrakvöldi Vestra,“ sagði Bergþór.
„Hversu hart gekk hún fram?“ var spurt í kjölfarið.
„Hún var að tosa buxurnar af hælunum á mér [...] Ég vakna úr nærbuxunum.“
MeToo-hætta af hálfu nokkurra einstaklinga
Í framhaldinu deildi Gunnar Bragi sinni sögu. „Það var svipað. Ég var nýlega orðinn ráðherra og þetta var í kringum kosningar, 2009-10 […] Það er einhver hátíð í samkomuhúsinu í Hnífsdal. Ég mæti þarna sem frambjóðandi ásamt fleirum. Ég er allt í einu farinn að dansa við þessa stúlku […] Ég sagði bara nei […] en það var bara suðað. Þá var bara eins og einhver hefði verið líflátinn. Hún var brjáluð, hún trylltist, hún grenjaði og öskraði. Ég bara hugsaði, hvað, á ég að ríða henni? Það var algjörlega kreisí.“ Viðstaddir hlógu að lokinni frásögninni.
„Þetta er sú þingkona sem hélt lengstu MeToo ræðuna. Og við sátum bara „what the fuck is going on“,“ bætti Bergþór við.
„Þessir menn munu aldrei ná bata nema þeir opni sig, og það í opnuviðtali,“ sagði Sigmundur Davíð og uppskar hlátur.
„Það getur vel verið að við ákveðnar aðstæður, ég ætla ekki að segja hvað aðstæður, að ég þurfi að labba að henni og segja: Ertu búin að gleyma því þegar þú reyndir að nauðga mér?“ sagði Gunnar Bragi og aftur var hlegið.
„Ég mun segja, ertu búin að gleyma því þegar þú reyndir að nauðga mér í alvöru?“ bætti Bergþór við. „Ég er búinn að sjá það að það er MeToo-hætta af hálfu nokkurra einstaklinga. Ég er bara búinn að sirkúlera út þau eintök sem mesta MeToo-hættan er af og þetta eintak er á þeim lista.“
Kjaftstopp yfir lygasögum þingmanna
Albertína sagði í samtali við Stundina á sínum tíma að Gunnar Bragi hefði hringt í sig og beðið hana afsökunar og sagt að ekkert af því sem fram hefði komið í samtalinu hefði verið satt. Hún sagðist jafnframt vera kjafstopp yfir orðum Gunnars Braga og Bergþórs um meintar sögur þeirra af henni. Hún sagði það mjög óþægilegt að láta ljúga svona sögum upp á sig.
„Hann gaf mér leyfi til að segja ykkur að hann væri tilbúinn til að bera þetta til baka og bað mig afsökunar,“ sagði Albertína. „Það er hrikalegt að vera ásakaður um eitthvað sem gerðist ekki.“
Aðspurð um viðburðina sem mennirnir tala um segist hún ekki kannast við atvikin. „Ég er eiginlega bara kjaftstopp. Mér er rosalega illt í hjartanu yfir öllum þessum samtölum sem þeir áttu þarna. Ég er hreinlega orðlaus. Þetta er bara ekki rétt.“
Segist hafa verið að lýsa erfiðri reynslu
Í frétt Viljans kemur fram að Bergþór geri mjög alvarlegar athugasemdir við þá ætlan forsætisnefndar að vinna álit úr ólöglega fengnum upptökum. Auk þess undrist hann þá ætlan þeirra Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson, varaforsetar forsætisnefndar Alþingis, að leggja blessun sína yfir það að karlmenn skuli grjóthalda kjafti ef á þá er sótt með harkalegum kynferðislegum hætti, en sé slíku haldið fram úr gagnstæðri átt, þá skuli karlinn helst ekki bera hönd fyrir höfuð sér.
Bergþór segist, samkvæmt heimildum Viljans, hafa verið að lýsa erfiðri reynslu sem hann hafi orðið fyrir í einkasamtali á meðal vina. Þingkona Samfylkingarinnar hafi gengið svo nærri sér kynferðislega að hann hafi verið lengi að átta sig á því hvað hafði gerst. Og nú virðist hann ekki mega ræða það í einkasamtölum.
Hann hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla að aðrir heyrðu til og óhug veki að það sem hann ræði í trúnaði í öruggu umhverfi eigi að nota gegn sér í pólitískum réttarhöldum með þeim hryllingi sem slíku fylgi fyrir sig, vini sína og vandamenn.
Bergþór segir jafnframt að það hryggi sig ósegjanlega, að forsætisnefnd Alþingis ætli sér að nýta þann glæp til að refsa þolendum brotsins og um leið þolendum kynferðisbrota almennt.