Meira en helmingur landsmanna, 60,2 prósent, vill að íslenska ríkið haldi eignarhaldi sínu á bönkunum óbreyttu eða ríkið bæti við sig eignarhaldi. Þá vilja 34,8 prósent landsmanna að ríkið dragi úr eignarhaldi sínu í bönkunum en aðeins 5,1 prósent landsmanna vilja að ríkið selji alla eignarhlutinn. Þetta kemur fram í nýrri könnun Zenter rannsókna fyrir Fréttablaðið.
Ríkisstjórnin sammála um að draga eigi úr eignarhaldi á bönkunum
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir að eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum sé það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því. Í janúar á þessu ári sagðist Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vera þeirrar skoðunar að til lengri tíma litið eigi ríkið að draga sig úr því umfangsmikla eignarhaldi sem það er með á bönkum.
Íslenska ríkið á sem stendur tvo banka, Íslandsbanka og Landsbankann. Ríkið fer með alla eignarhluti í Íslandsbanka og 98,2 prósenta eignarhlut í Landsbankanum. Bjarni sagðist vilja að ríkið verði áfram aðaleigandi Landsbankans, og eigi áfram 35 til 40 prósent hlut í þeim banka. Hann vill þó að ríkið fari út úr eignarhaldi á Íslandsbanka. Heimild er fyrir því í fjárlögum að selja allt hlutafé ríkisins í Íslandsbanka og allt utan 34 prósenta í Landsbankanum.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að ríkisstjórnin væri sammála um að dragi verði úr eignarhaldi á bönkunum. „Að okkar mati er mikilvægast að tryggja að kostnaður og áhætta almennings verði lágmörkuð. Þetta er ákveðin áhætta fyrir ríkið þó að ekkert bendi til þess núna að eignarhlutur ríkisins í bönkunum rýrni. Það er samt ekki að ástæðulausu sem við teljum skynsamlegt fyrir ríkið að vera ekki eins umsvifamikið á bankamarkaði og raun ber vitni.“
Mögulegt að hefja söluferli bankanna á þessu ári
Lárus L. Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, sagði í samtali við Morgunblaðið í byrjun júlí að niðurstöðu Bankasýslu ríkisins um hvort að selja eigi ríkisbankana sé að vænta á allra næstu vikum. Að hans mati eru bankarnir tilbúnir til sölu og í raun betri söluvara nú en á toppi hagsveiflunnar fyrir þremur árum.
Lárus sagði jafnframt að ef niðurstaðan verði sú að selja eigi bankana eða hluta þeirra þá miði áætlun Bankasýslunnar við að hægt sé að hefja söluferli bankanna á þessu ári og ljúka því árið 2020.
Aðeins 5 prósent vilja að ríkið selji allan eignarhlut sinn
Í könnun Zenter kemur fram að tæp 37 prósent þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar: „Hvernig vilt þú að íslenska ríkið hagi eignarhaldi á bönkum?“ vilja að eignarhald ríkisins í bönkum verði óbreytt. Þá vilja 16,5 prósent að ríkið auki eignarhald sitt í bönkum og tæp sjö prósent að ríkið eignist alla eignarhluti í bönkunum.
Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar vilja hins vegar tæp 35 prósent að dregið verði úr eignarhaldi ríkisins á bönkunum og rúm fimm prósent vilja að ríkið selji alla eignarhluti sína. Þá sögðust alls 27 prósent ekki vita hvernig haga ætti eignarhaldi ríkisins á bönkum.
Helmingur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vill að ríkið dragi úr eignarhaldi sínu
Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar segist um helmingur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar vilja að ríkið dragi úr eignarhaldi sínu í bönkum. Um 40 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokksins og Vinstri grænna, tæpur þriðjungur Pírata og um fjórðungur stuðningsmanna Samfylkingarinnar, Miðflokksins og Flokks fólksins segjast vilja að ríkið dragi úr eignarhaldi sínu .
Þá er stuðningur við óbreytt eignarhaldi mestur á meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins, Miðflokksins og Samfylkingarinnar eða rúm 40 prósent. Þá vilja um 30 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar óbreytt eignarhald.
Könnunin var framkvæmd dagana 24. til 29. júlí og var send á tvö þúsund einstaklinga í könnunarhóp Zenter rannsókna. Svarhlutfallið var 51 prósent en gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu