Þátttaka í ung- og smábarnabólusetningum á árinu 2018 var mun betri en skráð þátttaka í sömu bólusetningum árin á undan. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sóttvarnalæknis um þátttöku í almennum bólusetningum á Íslandi á árinu 2018.
Þá segir í skýrslunni að þátttaka árganga sem fjallað var um árið áður hafi nú lagast töluvert. „Þátttaka er nú hvergi undir 90 prósentum fyrir 12 mánaða, 18 mánaða eða 4 ára bólusetningar, en því miður nær hún ekki 95 prósentum fyrir mislingabólusetningu 18 mánaða barna.“
Í frétt Embættis landlæknis um málið segir að mislingafaraldur hérlendis síðastliðinn vetur hafi verið þörf áminning um nauðsyn þess að halda góðri þátttöku í bólusetningum hérlendis. Þátttaka yngstu árganganna í mislingabólusetningum sé víða undir 95 prósentum og hætt sé við að faraldur geti komið upp ef smit berst inn á leikskóla þar sem nokkur hópur óbólusettra barna kemur saman. Lítil hætta sé þó á stórum mislingafaraldri í samfélaginu almennt, þar sem þátttaka eldri árganga séu um og yfir 95 prósent.
Þátttakan í samfélaginu þarf að vera fullnægjandi
Í skýrslunni kemur fram að bólusetning sé ein áhrifaríkasta og kostnaðarhagkvæmasta aðgerð gegn alvarlegum smitsjúkdómi sem völ er á dag. Íslendingar hafi löngum verið fljótir að taka í notkun ný bóluefni þökk sé framsýni stjórnvalda og góðum viðtökum almennings en til að almenn bólusetning nái fullum árangri þurfi þátttakan í samfélaginu að vera fullnægjandi.
Fyrsta árlega opinbera uppgjör um þátttöku í bólusetningum hér á landi var birt á árinu 2013 en fyrir þann tíma hafði þátttakan verið áætluð út frá sölutölum bóluefnanna.
Andstaða foreldra ekki um að kenna
Í bólusetningaskýrslum undanfarinna ára hefur komið fram ófullnægjandi þátttaka í bólusetningum við 12 mánaða, 18 mánaða og fjögurra ára aldur. Bent hefur verið á nokkrar hugsanlegar skýringar eins og vanskráningu bólusetninga, ófullnægjandi innköllunarkerfi heilsugæslunnar í bólusetningar og ónákvæmri búsetuskráningu barna. Í skýrslunni segir að ekki sé talið að andstöðu foreldra við bólusetningar sé um að kenna og sé það stutt af niðurstöðum ýmissa rannsókna og skoðanakannana.
„Á undanförnum tveimur árum hefur verið innt mikil vinna af hendi við að bæta þátttöku hér í almennum bólusetningum. Árlegri fræðslu fyrir heilbrigðsstarfsmenn var hleypt af stokkunum fyrir tveimur árum, fræðsla fyrir almenning hefur verið aukin, innköllunarkerfi heilsugæslunnar hefur verið bætt og áhersla verið lögð á bætta skráningu í bólusetningagrunn.
Öll þessi vinna hefur leitt til þess að nú er þátttaka í almennum bólusetningum hér á landi ásættanleg á öllum aldursskeiðum eins og fram kemur í þessari skýrslu en ásættanleg þátttaka er forsenda þess að hér brjótist ekki út faraldrar alvarlegra smitsjúkdóma. Hins vegar vekur athygli í þessari skýrslu talsverður munur á þátttöku milli landssvæða sem krefst nánari skoðunar,“ segir í skýrslunni.
Áminning að vera stöðugt á varðbergi
Sóttvarnarlæknir rifjar upp að á síðastliðnum vetri hafi komið hér á landi upp lítill faraldur af mislingum en vegna samhentra viðbragða og góðrar bólusetningarþátttöku í samfélaginu þá hafi náðst að stemma stigu við frekari útbreiðslu. „Þessi reynsla á að vera okkur áminning um að stöðugt þarf að vera á varðbergi varðandi viðbrögð og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn alvarlegum smitsjúkdómum. Góð þátttaka í bólusetningum gegnir lykilhlutverki í slíkum fyrirbyggjandi aðgerðum.“