Viðreisn mælist með 12,2 prósent fylgi í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup, sem birtur var í fréttum RÚV í kvöld. Það er um tveimur prósentustigum meira en í síðasta mánuði. Fylgi flokksins hefur ekki mælst hærra frá því fyrir kosningarnar 2016, þegar flokkurinn bauð fram í fyrsta sinn.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 21,6 prósent fylgi, en hann hefur ekki mælst með minna fylgi í könnunum Gallup frá því í nóvember 2008, eða mánuði eftir bankahrun. Hann hefur einu sinni mælst með sama fylgi og ný, en það var í ágúst 2015. Flokkurinn tapar 2,1 prósentustigi frá síðustu könnun fyrirtækisins, en niðurstöður hennar voru birtar í upphafi júlímánaðar.
Samfylkingin mælist næst stærsti flokkur landsins með 13,7 prósent fylgi og Píratar mælast með 12,7 prósent. Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, mælast með 12 prósent fylgi og Framsóknarflokkurinn, sem situr í ríkisstjórn með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki, nýtur stuðnings 8,5 prósent kjósenda.
Flokkur fólksins er eini flokkurinn sem á nú fulltrúa á þingi sem myndi ekki ná inn manni ef kosið yrði í dag, en flokkurinn nýtur stuðnings 3,7 prósent kjósenda samkvæmt Gallup. Þá segjast 3,2 prósent ætla að kjósa Sósíalistaflokk Íslands.