Alls tapaði Icelandair Group 89,4 milljónum dölum, eða um ellefu milljörðum króna, á fyrstu sex mánuðum ársins 2019. Heildartekjur félagsins jukust frá sama tímabili í fyrra og Icelandair flutti 39 prósent fleiri farþega á öðrum ársfjórðungi en á sama fjórðungi árið áður.
Eiginfjárhlutfall félagsins lækkar úr 25 prósent i 28 prósent frá áramótum þrátt fyrir að hlutafjáraukning upp á um 5,6 milljarða króna hafi átti sér stað á tímabilinu. Þetta mál lesa út úr hálfsársuppgjöri Icelandair Group sem birt var í kvöld.
Þar kemur fram að ástæðan fyrir slöku uppgjöri sé kyrrsetning MAX-véla félagsins en þær hafa ekki flogið frá 12. mars síðastliðnum. Alls eru áhrif kyrrsetningarinnar metin á 45,7 milljónir dala, eða um 6,1 milljarða króna. Vert er að taka fram að MAX-vélarnar eru enn kyrrsettar og ekkert liggur fyrir um hvenær þær verði teknar aftur í notkun.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að stefnt hafi verið að því að MAX-vélarnar myndu samsvara 27 prósent af sætaframboði félagsins á árinu 2019. Því er sú staða sem komin er upp vegna kyrrsetningar MAX vélanna fordæmalaus og hefur veruleg áhrif á rekstur og afkomu félagsins. „Í þessum aðstæðum höfum við lagt höfuðáherslu á að lágmarka tjón félagsins og áhrif kyrrsetningarinnar á farþega og íslenska ferðaþjónustu með því að bæta leiguvélum við flota félagsins í sumar. Þá hefur það verið forgangsverkefni hjá okkur að tryggja flugframboð til og frá Íslandi og þannig hefur farþegum Icelandair til Íslands fjölgað um 39 prósent á öðrum ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra. Þrátt fyrir þessar mótvægisaðgerðir, sem hafa komið í veg fyrir stórfelldar niðurfellingar á flugi, hefur orðið talsverð röskun á flugáætlun okkar og starfseminni allri. Þetta hefur haft áhrif á farþega okkar og valdið flóknum úrlausnarefnum innan félagsins. Starfsfólk Icelandair á mikið hrós skilið fyrir frammistöðu sína við mjög erfiðar aðstæður á háannatíma þar sem allir hafa lagst á eitt að leysa eins farsællega úr málum og mögulegt er.“
Í apríl keypti bandaríski sjóðurinn PAR Capital Management 11,5 prósent hlut í Icelandair í kjölfar hlutafjáraukningar. Þá undirritaði félagið kaupsamning vegna sölu á Icelandair Hotels og tengdum fasteignum í júlí. Bogi segir að hvort tveggja styrki stöðu Icelandair Group og sé mikilvæg staðfesting á góðum langtímahorfum félagsins og framtíðartækifærum í íslenskri ferðaþjónustu.