„Reynsla kreppuríkjanna bendir ekki til þess að hagkerfin séu í eðli sínu stöðug. Þvert á móti bendir hún til þess að fylgjast þurfi með útlánum fyrirtækja og grípa til aðgerða ef þau vaxa of hratt, t.d. með hækkun vaxta seðlabanka í endurhverfum viðskiptum eða hækkun bindiskyldu. Einnig bendir reynsla landanna til þess að fylgjast þurfi með þróun eignaverða – hlutabréfaverðs og fasteignaverðs – og þá einnig grípa inn í ef þau hækka of hratt eða eru of há.“
Þetta segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, í ítarlegri grein sem kemur til áskrifenda Vísbendingar í dag. Í greininni skoðar hann meðal annars tengsl fjárfestingar og atvinnuleysis í aðdraganda og í kjölfar fjármálakreppunnar hér á landi árið 2008 og í öðrum kreppulöndum.
Gylfi segir að áherslur í hagstjórn hafi breyst á síðustu tíu árin hér á landi og sveiflur hagkerfisins minnkað. Það sem hefur skipt höfuðmáli, að mati Gylfa, er að minnka sveiflur gengis krónunnar með því að nota fleiri stjórntæki en vexti.
„Seðlabankinn
hefur keypt og selt gjaldeyri í því skyni
að minnka sveiflur gengisins og koma
í veg fyrir spírala í gengi krónunnar.
Einnig hefur sérstakri bindiskyldu
verið beitt til þess að takmarka innflæði
fjármagns, þ.e.a.s. fjárfestingar erlendra
aðila á innlendum skuldabréfamarkaði.
Beiting fjárstreymistækisins og inngrip á
gjaldeyrismarkaði hafa dregið úr sveiflum
krónunnar og komið í veg fyrir að
sveiflur hennar yrðu sjálfstæð uppspretta
hagsveiflu. Jafnframt hefur vaxtastigi
verið haldið nægilega háu til þess að örva
sparnað, hægja á aukningu eftirspurnar
og búa til afgang á viðskiptum við
útlönd.“
Auk þess bendir Gylfi á að stofnanleg umhverfi fjármálamarkaða hafi einnig breyst á undanförnum árum sem hefur dregið úr líkum á því að væntingar um þróun gengis, hlutabréfa og fjárfestinga valdi uppsveiflum og niðursveiflum í hagkerfinu. Þannig hafi verið settar takmarkanir á lántökur í erlendum gjaldmiðlum og lántökur til þess að fjármagna kaup á hlutabréfum.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér, en vitnað er til lítils hluta greinarinnar hér að ofan, sem kemur til áskrifenda á föstudögum.