„Þetta er langt fyrir neðan virðingu þess Sigmundar Davíðs sem kom eins og ferskur blær inn í íslensk stjórnmál fyrir nokkrum árum. Hann barðist fyrir hugsjónum sínum. Í dag er býsna erfitt að átta sig á hvert þú ert að fara nema það sé, hvað sem er fyrir hvaða stuðning sem er,“ skrifar Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar, í opnu bréfi til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssona, formanns Miðflokksins, á Facebookí dag.
Kári segir ljóst að í leit Sigmundar Davíðs að pólitískum stuðningi í samfélaginu þá geri hann út á þá vonleysu og firrtu. Í stað þess að varða þeim vonlausu og firrtu úr ástandinu þá sé Sigmundur að ala á vonleysinu og firringunni og fylgi þar með fordæmi öfgaflokka í Evrópu og Trumps í Bandaríkjunum.
Samspil sýndarmennsku og stjórnmála
Kári segir að bréfið fjalli um manninn sem stöðugt er að leita að annarra manna flísum, sitjandi á eigin bjálka. Hann segir Sigmund Davíð ætlast til þess að lesendur tveggja aðsendra greina eftir Sigmundur Davíð um sýndarstjórnmál í Morgunblaðinu hafi gleymt Panamaskjölunum og Klaustursmálinu. „Það er nefnilega erfitt að ímynda sér betri dæmi um samspil sýndarmennsku og stjórnmála en þá tvo,“ segir Kári.
„Sigmundur Davíð, það var einu sinni forsætisráðherra á Íslandi sem samdi við kröfuhafa í þrotabú allra íslensku bankanna. Í húfi voru gífurlegir hagsmunir þjóðarinnar og má leiða að því rök að það hafi sjaldan eða aldrei verið gerðir samningar sem skiptu fólkið í landinu meira máli. Svo kom allt í einu í ljós að forsætisráðherrann var sjálfur einn af kröfuhöfunum. Hann var sem sagt að semja við sjálfan sig fyrir hönd þjóðarinnar,“ segir Kári og bætir við að í stað þess að skammast sín fór Sigmundur Davíð að agnúast út í blaðamennina sem sögðu frá þessu.
„Svo voru það einu sinni nokkrir alþingismenn sem fóru út á Klausturbarinn og drukku meira en góðu hófi gegndi og glötuðu um stundarsakir þeim hömlum sem leggja að mörkum til kurteisi í tali manna á milli. Afleiðingin var sú að þessir kjörnu fulltrúar þjóðarinnar sögðu ýmislegt sem var alls ekki við hæfi,“ skrifar Kári.
Þá segir hann drykkjuna í sjálfu sér ekki stórmerkilega en að mati Kári eru það viðbrögð þingmannanna við því að samtöl þeirra voru tekin upp og spiluð fyrir eyrum landsmanna sem gerði Klaustursferð þingmanna Miðflokksins virkilega athyglisverða.
„Í stað þess að viðurkenna einfaldlega að þeir hafi verið fullir og sagt alls konar vitleysu sem þeir allsgáðir meini ekki og skammist sín fyrir mátti á þeim skiljast að sá sem tók upp samtalið væri ábyrgur orða þeirra en ekki þeir sjálfir,“ skrifar Kári.
Gerir út á þá vonlausu og firrtu
Í bréfinu fjallar Kári jafnframt um tvær aðsendar greinar Sigmundar Davíðs en hann segir að það sé ljóst á þeim orðum sem birtast í greinunum að leit Sigmundar Davíðs að pólitískum stuðningi í samfélaginu geri út á þá vonlausu og firrtu og í stað þess að varða þeim leið út úr því ástandi þá ali hann á vonleysinu og firringunni.
Fyrri greinin fjallar um hnattræna hlýnun eða loftslagsbreytingarnar ógnvænlegu og segir Kári Sigmund Davíð dæma allar tilraunir til að vinna gegn þeim sem sýndarmennsku. „Þú gengur meira að segja svo langt að hæðast að lítilli stúlku sænskri sem hefur náð athygli heimsbyggðarinnar fyrir það hversu skýrlega hún hefur tjáð áhyggjur sínar af framtíðinni. Það er niðurstaða mælinga að hnötturinn er að hitna. Þess vegna er hnattræn hlýnun ekki kenning heldur staðreynd.“
Kári segir jafnframt að það sé ósönnuð kenning að maðurinn leggi að mörkun til hlýnunarinnar með lífsháttum sínum en búið sé að leiða töluverðar líkur að því að sú kenning sé rétt. Hann segir að það sé líka ósönnuð kenning að maðurinn geti minnkað hlýnunina með því að breyta lífsháttum sínum en að einnig sé búið að leiða nokkrar líkur á því að sú kenning sé rétt hvort svo sem fyrri kenningin sé rétt eða röng.
„Það er hafið yfir allan vafa að ef hnötturinn heldur áfram að hitna eins hratt og hann gerir í dag er stutt í að það fari að skerða lífsskilyrði mannsins. Þess vegna er það skylda okkar við börn okkar, barnabörn og komandi kynslóðir að ganga út frá því sem vísu að seinni kenningin sé rétt af því að hitt væri óásættanleg uppgjöf,“ segir Kári .
Hann segir Sigmund Davíð dæma hugmyndir annarra sem sýndarmennsku án þess að benda á aðrar betri sem sé bara ein aðferð til að hvetja til þess að ekkert sé gert.
Segir Sigmund Davíð fylgja fordæmi Trumps
Seinni grein Sigmundar fjallar um þá sem flýja fátækt, stríð og aðra eymd heimsins og segir Kára hann benda réttilega á að heimurinn sé ekki að höndla þann vanda vel. Hann segir hins vegar að ályktun Sigmundar í greininni sé vitlaust og að hann sé að fylgja fordæmi öfgaflokka í Evrópu og Trumps í Bandaríkjunum.
„Það er hins vegar í mínum huga ekkert rétt og allt rangt við þá ályktun sem má lesa milli línanna hjá þér að þess vegna eigum við taka á þessu fólki af hörku þegar það rekur á okkar fjörur sem flóttafólk í leit að næturstað. Þú nefnir sem dæmi um vandann ástandið á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó í valdatíð Obama en minnist ekki orði á þá hörmung sem Trump hefur valdið á sama stað. Það má skilja sem svo að þú lítir aðgerðir Trump sem lausn á vandanum; að reisa himinháa múra á landamærum við þau lönd þar sem eymd ríkir og skilja að kornabörn og foreldra þeirra ef þau lauma sér inn í landið svo að öðrum skiljist að það sé eins gott fyrir þau að halda sig heima.“
Hvað sem er Opið bréf til Sigmundar Davíðs formanns Miðflokksins Kári Stefánsson Sigmundur Davíð þetta er bréf sem...
Posted by Kari Stefansson on Friday, August 2, 2019