Jim Ratcliffe, einn ríkasti maður Bretlands og stofnandi IEOS, segir að stórfellt uppkaup hans á jörðum á Íslandi séu hluti af yfirstandandi aðgerðum til verndar íslenska laxastofninum.
Í fréttatilkynningu frá Ratcliffe sem send var út í morgun staðfestir hann kaup á jörðinni Brúarlandi 2 í Þistilfirði. Hann hefur auk þess fjárfest í landareignum í Vopnafirði og keypti meirihluta af jörðinni Grímsstöðum, þar sem íslenska ríkið er á meðal meðeigenda.
Eignarhald Ratcliffe á jörðum hérlendis er í gegnum félagið Dylan S.A. sem er móðurfélag um 20 annarra félaga sem eiga jarðir á Íslandi. Eignir Ratcliffe eru metnar á um 1.500 milljarða íslenskra króna.
Segist vera með heildstæða nálgun
Ratcliffe segist einnig vera að vinna gegn jarðeyðingu í samstarfi við nærsamfélagið á Norðausturlandi og að bættu heilsufari vistkerfis ánna, með fjárfestingu í endurræktun skóga og endurheimt gróðurfars. Þá segist hann standa að ítarlegri langtímarannsókn á afkomu íslenska laxins í ánum og í norðanverðu Atlantshafi. í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og háskóla innan lands og utan, með það að markmiði að auka lífslíkur tegundarinnar sem mest. „Norðausturland stendur hjarta mínu nær. Eftir því sem heimsóknunum þangað fjölgar eykst löngun mín til þess að gefa svæðinu til baka, til að hjálpa Norður-Atlantshafslaxinum, sem er ógnað, og einnig til að styðja við samfélagið nærri ánum. Mín skoðun er að sjálfbær langtímanálgun með starfsemi sem stendur undir eigin fjármögnun skipti sköpum, geri laxinum kleift að þrífast vel, ekki bara um skemmri tíma heldur um alla framtíð,“ segir Ratcliffe.
Þá segir Ratcliffe að kaupin á meirihlutaeign í jörðinni Grímsstöðum, þar sem meðeigendur eru íslenska ríkið og smærri hluthafar, séu birtingarmynd heildstæðrar nálgunar sinnar á verndarstarf. „Náttúruvernd hefur alltaf verið og verður áfram eini tilgangur aðkomu minnar á Norðausturlandi Íslands. Ég vil leggjast á árar við að viðhalda laxastofnunum þar, og vinna náið með bændum og byggðarlögum. Von mín er að úr starfinu verði til sjálfbær starfsemi í sátt við náttúruna, sem einnig komi lífríki svæðisins og samfélaginu öllu til góða.“
Þverpólitísk samstaða um takmörkun
Jarðarkaup erlendra aðila á Íslandi hafa verið mikið í umræðunni undanfarið, og annað veifið undanfarin ár. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði við Morgunblaðið í júlí að hann bindi vonir við að frumvarp um jarðakaup útlendinga hér á landi verði tilbúið snemma í haust. Hann vill jafnframt ganga eins langt og hægt er með löggjöfinni.
Sigurður Ingi sagði þróun jarðarkaupa síðustu ára vera alveg óviðunandi. „Þess vegna hafa stjórnvöld verið með það til skoðunar hvaða leiðir séu færar til að hafa þetta umhverfi með eðlilegri hætti og líkara því sem við þekkjum bæði í Noregi og Danmörku.“
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í viðtali í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í júlí að breiður pólitískur vilji væri til að takmarka jarðakaup auðmanna hér á landi. Það sé skýrt að ekki eigi að líta á land eins og hverja aðra vöru eða þjónustu.