Lífeyrissjóðurinn Gildi hefur bætt við sig hlutum í Arion banka og er nú kominn með yfir fimm prósent eignarhlut, sem þýðir að viðskipti verða flöggunarskyld. Samkvæmt tilkynningu til Kauphallar er eignarhlutur Gildis nú 5,39 prósent en var 4,73 prósent fyrir viðskiptin. Það gerir Gildi að þriðja stærsta eiganda Arion banka á eftir vogunarsjóðunum Taconic Capital (23,53 prósent) og Och Ziff Capital (9,25 prósent).
Gildi er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins. Hinir tveir stóru sjóðirnir, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóður verzlunarmanna, eiga einnig umtalsverðan hlut í Arion banka. LSR á 3,58 prósent hlut en Lífeyrissjóður verzlunarmanna 2,73 prósent. Sameiginlegur eignarhluti þeirra er því 11,68 prósent. Stærsti íslenski einkafjárfestirinn er fjárfestingafélagið Stoðir, sem á 4,96 prósent hlut.
Tveir nýir stjórnarmenn kosnir
Hluthafafundur fer fram í Arion banka næstkomandi föstudag, þann 9. ágúst, daginn eftir að hálfsársuppgjörið verður gert opinbert. Þar verður meðal annars kosið um tvo nýja stjórnarmenn sem eiga að starfa fram að næsta aðalfundi bankans, sem fram mun fara vorið 2020.
Þrír hafa boðið sig fram til setu í stjórninni. Þeir eru Gunnar Sturluson, lögmaður og einn eiganda Logos , Paul Richard Horner, starfsmaður Ulster Bank Ireland og Már Wolfgang Mixa hagfræðingur. Tilnefningarnefnd Arion banka hefur farið yfir framboð þeirra og í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að hún leggi til að Gunnar Sturluson og Paul Richard Horner verði kjörnir stjórnarmenn.
Auk þess verður kosið um eitt sæti í tilnefningarnefnd bankans. Einn gefur kost á sér í það sæti, Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Stoða, sem eiga 4,96 prósent hlut í bankanum. Stjórn Arion banka hefur metið hæði Júlíusar og samkvæmt tilkynningu er hann óháður Arion banka.