„Háttvirtur formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis notar orðið „skítur“ um það að íslenska ríkið taki til varna þegar að hagsmunum Íslands og íslenskrar stjórnskipunar er sótt í gegnum erlendar stofnanir. Það kemur svo sem ekki á óvart að Samfylkingin taki afstöðu gegn Íslandi eins og hún gerði í Icesave málinu og með umsókninni og aðlöguninni að Evrópusambandinu á sínum tíma. En þetta orðbragð lýsir alveg nýjum metnaði gegn hagsmunum Ísland.“
Þetta segir Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi dómsmálaráðherra, í stöðuuppfærslu á Facebook.
Þar vísar hún til orða Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, vegna svarleysis núverandi dómsmálaráðherra vegna fyrirspurnar hennar um kostnað hins opinbera af Landsréttarmálinu svokallaða.
Helga Vala sagði í stöðuuppfærslu á Facebook í dag að ráðherrann hefði ekki svarað margítrekuðum fyrirspurnum sínum um málið og velti því fyrir sér hvort það gæti ekki verið að henni væri ekki svarað „því það er verið að bíða eftir nýjum dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokks og sú sem þar situr vill bara alls ekki fá þennan skít á sig?“
Segir þingmenn Samfylkingar hafa staðið að „mannréttindabroti“
Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í mars síðastliðnum að Sigríður og Alþingi hafi skipað fjóra dómara af þeim 15 sem voru upphaflega skipaðir í Landsrétt með ólögmætum hætti. Sigríður þurfti að segja af sér embætti dómsmálaráðherra vegna málsins.
Þá gerir ein af pólitískt skipuðum stofnunum Evrópuráðsins, MDE, því skóna í málaferlum manns, sem játaði að hafa ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttinda, að dómur Landsréttar yfir manninum hefði verið mannréttindabrot!“
Sigríður bætir við að önnur ástæða fyrir ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu sé sú ákvörðun Alþingis, þvert á það sem hún hafi lagt til við Alþingi, að greiða atkvæði í einu lagi um allar 15 tillögurnar. „Þeir sem stóðu að þessu „mannréttindabroti“ á sakborningi að mati MDE voru meðal annarra þingmenn Samfylkingarinnar.“
Eftir að Helga Vala birti sína stöðuuppfærslu í dag birti Fréttablaðið upplýsingar um að núverandi dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hafi þegar svarað fyrirspurn hennar en að það svar hafi ekki enn verið birt á vef Alþingis.
Háttvirtur formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis notar orðið „skítur“ um það að íslenska ríkið taki til...
Posted by Sigríður Á. Andersen on Wednesday, August 7, 2019